Fagnar því að geta tryggt grunnþjónustu

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir mikilvægt að hafa fengið halla …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir mikilvægt að hafa fengið halla upp á tæpan milljarð gefin eftir svo spítalinn geti byrjað á núlli. mbl.is/Golli

Það gæti vantað allt að tvo milljarða fyrir rekstur Landspítalans, að sögn forstjórans Páls Matthíassonar. „Við fáum rúmlega tvo milljarða í viðbót á fjárlögum og að auki u.þ.b. milljarð til viðbótar vegna eldri halla sem er gefinn eftir. Þá vantar ennþá nærri tvo milljarða að okkar mati og við létum vita af þessum áhyggjum okkar,“ sagði Páll.

Það sé hins vegar ljóst að heilbrigðisráðherra og Velferðarráðuneytið meti það sem svo að í þeim flókna pakka þar sem verið er að setja fé til annarra heilbrigðisstofnana, heilsugæslunnar og öldrunarþjónustu þá eigi Landspítalann ekki að vanta, þegar staðan er skoðuð heildstætt.  

„Við höfum engu að síður ákveðnar áhyggjur af því,“ sagði Páll.

Markmiðið að ekki komi til uppsagna eða niðurskurðar

Páll segir að formaður fjárlaganefndar hafa staðfest í ræðustól í kvöld að markmiðið væri að ekki komi til uppsagna eða niðurskurðar á Landspítalanum. Nefndin hafi enn fremur sagt að ef það stefndi í slíkt á næsta ári, þá muni hún koma saman og samþykkja fjáraukalög til að tryggja að ekki þurfi að fara í niðurskurð eða uppsagnir.

„Þannig að við hljótum þá að fagna því að geta tryggt áfram grunnþjónustu á Landspítalanum,“ sagði Páll og bætti við: „Jafnframt þá verðum við að minna á að það bíður þá nýrrar ríkisstjórnar að fjármagna með fullnægjandi hætti þá stóruppbyggingu sem þarf að ráðast í á Landspítalanum og  sem að við kölluðum eftir þegar við gerðum mat á okkar fjárþörf nú í haust.“

Páll segir afgreiðslu málsins vissulega óvenjulega og hún hafi óneitanlega komið sér á óvart. „Ég hef ekki heyrt um svona áður, en óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar lausnir og við fögnum því vissulega að þarna sé alþingi að tryggja óbreyttan rekstur Landspítalans.“

Bíður nýrrar ríkisstjórnar að gefa í

Spurður hvort þetta sé í takt við kosningaloforðin segir hann svo ekki vera. „Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að gefa í. Menn boðuðu miklu meira en að það yrði ekki skorið niður.“

Um helmingur þess fjár sem nú er ætlaður spítalanum er eyrnamerktur bráðaviðgerðum vegna myglu og annars nauðsynlegs viðhalds. „Ég veit að mitt starfsfólk mun fagna því mjög.  Síðan eru um 1.050 milljónir ætlaðar í rekstrarstyrkingu.“  

Mikilvægt að geta byrjað á núlli

Páll kveðst vera nokkuð sáttur við þessa skiptingu.  „Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá aukið fé með þessum hætti inn í þessa bráðu viðhaldsþörf, sérstaklega er snýr að rakaskemmdum og myglu.  Það hefur verið mikið og vaxandi vandamál, sem ég veit að hefur haft áhrif á vellíðan starfsfólks.“

Ekki sé síður mikilvægt fyrir spítalann að fá gefin eftir eldri halla. „Samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál dregst hallinn á rekstrarreikningi strax frá fjárframlögum næsta árs í stað þess að vera til hliðar á efnahagsreikningi eins og áður. Þess vegna er svo mikilvægt að fá hallan gefinn eftir með þessum hætti og geta þá byrjað á núlli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert