Framlög til lögreglu „duga engan veginn“

Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna, segir að þær upphæðir sem veitt verður til lögreglunnar samkvæmt fjárlögunum dugi engan veginn til að halda uppi þeirri löggæslu sem nauðsynlegt er að halda uppi.

Þegar fjárlögin voru fyrst kynnt fóru heildarframlögin til löggæslumála að nafnvirði úr 11,8 milljörðum króna árið 2015 milljörðum króna í 13,7 milljarða á næsta ári. Fjárlaganefnd lagði í gær til viðbótarútgjöld til lögreglunnar upp á 500 milljónir króna.

Frétt mbl.is: Meira fé í stóra málaflokka

Þarf að fjölga um 200

„Ég hef ekki náð að skoða fjárlögin eins og þau liggja fyrir núna en þessar upphæðir duga engan veginn til þess að koma lögreglunni á þann stað sem hún þyrfti að vera á. Samanber það sem komið hefur fram meðal annars í úttektum ríkislögreglustjóra á mannaflaþörf fyrir lögreglu og fleira,“ segir Snorri, aðspurður. „En þetta er í áttina.“

Hann segir að lögreglumenn á landinu séu alltof fáir og að þeim þurfi að fjölga þurfi um að lágmarki um 200 manns. Þeir eru núna rúmlega 650 en þyrftu að vera að minnsta kosti 850.

Frétt mbl.is: „Þetta er grafalvarleg staða“

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Glíma við langa skuldahala

Spurður hvort hægt verður að fjölga lögreglumönnum miðað við framlögin til lögreglunnar segist hann eiga erfitt með að svara því eins og staðan er núna. Þegar fjármunir voru auknir til lögreglunnar árið 2014 um í kringum 400 milljónir króna sem nota átti í fjölgun lögreglunnar um 40 á landsvísu hafi það ekki gengið eftir.

„Peningurinn fór að einhverju leyti í niðurgreiðslu á hallarekstri embættanna sem þau voru að draga á eftir sér. Hvort það gerist aftur núna veit ég ekki en embættin eru flest ef ekki öll að glíma við ansi langa og gamla skuldahala. Ef ekki verður tekið á því sérstaklega er þetta bara dropi í hafið,“ greinir Snorri frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert