Fullþakkað fyrir í fjárlaganefnd

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gat ekki setið á sér …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gat ekki setið á sér og sló á létta strengi þegar hver þingmaðurinn á fætur öðrum steig í pontu og lofsamaði samstarfið við fjárlög. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þakklæti, jákvæðni og hlý orð einkenndu síðustu ræður nefndarmanna í fjárlaganefnd sem stigu í pontu Alþingis í kvöld við lok annarrar umræðu um fjárlög 2017. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að traust hefði myndast manna á milli og þess vegna hafi fólk þvert á flokka komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði þann góða anda og traust sem ríkt hefði við vinnu fjárlaga vera leiðarvísi inn í þetta kjörtímabil.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Silja Dögg sagði þessa sameiginlegu niðurstöðu hafa áhrif langt út fyrir þingið. „Með því að treysta hvert öðru fáum við almenning til að treysta okkur,“ sagði hún áður en hún hrósaði formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir hans störf, en Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiðir nefndina. „Takk fyrir og gleðileg jól,“ sagði hún svo áður en hún steig úr pontu.

Þorsteinn var ekki síður ánægður með starf nefndarinnar og hvernig fjárlög unnust. „Þakka formanni og öðrum í nefndinni fyrir samstarfið.“ Sagðist hann gera ráð fyrir að þetta gæti orðið leiðarvísir fyrir gott samstarf inn í kjörtímabilið. Þannig væri góður andi og gott traust manna á milli og gerðar hafi verið góðar breytingar við vinnslu frumvarpsins sem geri fjárlögin betri fyrir vikið.

Var Þorsteinn síðastur á mælendaskránni og tók þá Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, til máls og grínaðist örlítið með þá jákvæðni sem sveif yfir vötnum. „Lítur út fyrir að fullþakkað sé fyrir í fjárlaganefnd,“ og uppskar mikinn hlátur í salnum í kjölfarið.

Það var góður andi á Alþingi.
Það var góður andi á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjárlögin voru næst borin upp til atkvæðagreiðslu og samþykktu allir viðstaddir þingmenn þau eða sátu hjá í einstökum málum, eins og gert hafði verið ráð fyrir. Fara þau nú til þriðju umræðu, en líklegt er að það verði síðar í kvöld og verði þá aðeins um atkvæðagreiðslu að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert