Borgarráð hefur samþykkt að ráða Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, í starf borgarritara. Stefán hefur starfað sem sviðsstjóri velferðarsviðs frá 1. september 2014, en þar áður sat hann í lögreglustjóraembættinu frá 2007.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir að borgarritari sé æðsti embættismaður borgarinnar að undanskildum borgarstjóra, og einn af staðgenglum hans.
„Á árunum 2002- 2006 starfaði Stefán sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis, á árunum 2007-2014 sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og frá 2014 sem sviðsstjóri velferðarsviðs. Stefán lauk embættisprófi í lögfræði (Cand.jur) frá Háskóla Íslands í febrúar 1996 og hdl. 1997 og hefur hann sótt fjölda námskeiða, sinnt kennslu í lögfræði á háskólastigi og verið fyrirlesari á ýmsum vettvangi, m.a. í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.
Stefán var talinn uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til borgarritara. Á sama tíma og Stefáni er óskað farsældar í starfi er öðrum umsækjendum þakkaður sýndur áhugi og óskað velfarnaðar,“ segir í tilkynningunni.