Vann Karl Marx-eftirhermukeppni

Gáttaþefur gerði það gott á Kúbu þar sem hann dreifði …
Gáttaþefur gerði það gott á Kúbu þar sem hann dreifði moskítónetum sem fólk á Íslandi hjálpaði honum að útvega sem svokallaðar sannar gjafir fyrir síðustu jól. Teikning/Brian Pilkington

Þó að börn á Íslandi þekki flest jólasveinana þrettán, þá eru þeir lítt þekktir utan landsteinanna. Í ár hefur hins vegar borið á áhuga á sveinunum á alþjóðavettvangi, en þeir hafa verið á ferð og flugi um allan heim á vegum UNICEF.

Til að mynda gerði Gáttaþefur það gott á Kúbu þar sem hann dreifði moskítónetum sem fólk á Íslandi hjálpaði honum að útvega sem svokallaðar sannar gjafir fyrir síðustu jól.

„Fólk var alltaf að segja mér að ég væri alveg eins og Karl Marx,“ segir Gáttaþefur en eins og flestir vita er Marx höfundur Kommúnistaávarpsins og í hávegum hafður á Kúbu. Gáttaþefur segist hafa verið plataður til að taka þátt í stórri Karl Marx-eftirhermukeppni sem var sjónvarpað um alla Kúbu, en þar stóð hann á endanum uppi sem sigurvegari.

„Mér hefur alltaf fundist Ché vera flottari, þó að hann hafi verið með minna skegg,“ segir hann. 

Ljósmynd/UNICEF

Vindlar á stærð við nef Gáttaþefs

Fyrir sigurinn hlaut Gáttaþefur kassa af kúbverskum vindlum og ársbirgðir af rommi, en hann segist lítt hrifinn af slíku. „Ég er agalega viðkvæmur fyrir tóbaksreyk, enda þefnæmari en fólk almennt. Þetta voru engir smá vindlar, sumir á stærð við nefið á mér.“

Þó að Gáttaþefur sé bindindismaður á áfengi og tóbak, brá hann sér út á lífið í Havana. „Ég fór á tónleika með minni uppáhaldshljómsveit, Bueno Vista Social Club. Ég er búinn að fylgjast með þessum strákum síðan þeir byrjuðu og finnst þeir verða betri með hverju árinu. Mér finnst svo gaman að fylgjast með því sem unga fólkið er að bralla.“

Ljósmynd/UNICEF

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is

Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert