Aldrei gerst í nútímasögu þingsins

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ófeigur

Eins og mbl.is hefur áður greint frá greiddu aðeins 27 þingmenn atkvæði með frumvarpi til fjárlaga á Alþingi í gær. Fjárlög Alþingis hafa aldrei verið samþykkt með jafnfáum atkvæðum í nútímasögu þess, eða síðan efri og neðri deild þingsins sameinuðust fyrir um aldarfjórðungi.

Á þeim tíma hefur það fimm sinnum gerst áður að fjárlög séu ekki samþykkt með meirihluta atkvæða alþingismanna.

Fjárlög fyrir árið 2001, í tíð þriðja ráðuneytis Davíðs Oddssonar, voru þannig samþykkt með 30 atkvæðum, en 18 greiddu ekki atkvæði.

Tvisvar í tíð Halldórs og Jóhönnu

Fjárlög fyrir árið 2005 og 2006, þegar Halldór Ásgrímsson gegndi embætti forsætisráðherra, voru þá samþykkt með 31 atkvæði annars vegar og hins vegar 28 atkvæðum. 24 sátu hjá í bæði skiptin.

Undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerðist það einnig tvisvar að meirihluti þingmanna greiddi ekki atkvæði með frumvarpi til fjárlaga. 31 gerði það fyrir árið 2012 og 28 ári síðar. Athygli vekur að fjárlög fyrir árið 2012 voru þau einu á umræddu 25 ára tímabili, þar sem atkvæði voru greidd gegn frumvarpinu. Það gerðu þrír þingmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert