Foreldrar kannast flestir við hversu spennandi það getur verið að fylgjast með þyngd barna fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að þau fæðast. Slíkar mælingar eru þó ekki bara til gamans gerðar því mikilvægt er að vita hvernig börnum gengur að nærast svo tryggja megi að þau stækki og dafni sem best. Þetta á svo sannarlega líka við á svæðum þar sem margir eru hungraðir og hætta er á vannæringu barna.
Meðal gjafa sem íslenskum almenningi býðst að kaupa sem svokallaðar sannar gjafir hjá UNICEF er ungbarnavigt sem notuð er á sjúkrahúsum og næringarmiðstöðvum. Fyrir síðustu jól keyptu Íslendingar ríflega 310 slíkar vogir sem meðal annars voru sendar til Haítí. Íslenski jólasveinninn Ketkrókur var valinn til að fara með gjafirnar á vettvang.
„Mig hefur langað að koma til Haítí síðan platan The Score með hljómsveitinni Fugees kom út árið 1995,“ sagði Ketkrókur þegar við náðum tali af honum undir kvöld í gær.
Eins og margir vita er The Fugees skipuð Bandaríkjamönnum sem eru ættaðir frá Haítí, en þau hafa í gegnum tíðina látið sig málefni upprunalandsins varða. Meðal annars bauð einn liðsmanna, Wyclef Jean, sig fram til forseta þar fyrir nokkrum árum.
„Geisladiskurinn the Score hefur rúllað eiginlega látlaust í Mözdunni minni síðan hann kom út. Ef það er tvennt sem ég elska í þessum heimi þá er það kjöt númer eitt og hljómsveitin Fugees númer tvö.“
Ketkrókur viðurkennir að hann hafi ekki vitað mikið um Haítí áður en hann kom þangað. „Ég varð auðvitað var við landið í fréttum þegar jarðskjálftinn reið yfir fyrir nokkrum árum. Það hefur verið erfitt fyrir samfélagið að vinna sig út úr því. Og það er gott að vita að maður getur hjálpað til.“
Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk er hvatt til að hjálpa jólasveinunum með því að gefa gjafir sem bjarga lífi barna þessi jólin. Mikið úrval er að finna á vefsíðunni sannargjafir.is.
Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.