Heimilt verður fjármálaráðherra að selja Tollhúsið við Tryggvagötu og húsnæði Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg, og kaupa eða leigja hentrugra húsnæði fyrir þá starfsemi ríkisins sem nú er í húsunum. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjárlaga, sem samþykkt var á Alþingi í gærkvöldi.
Breytingartillaga sama efnis var einnig lögð fram fyrir síðustu fjárlög, en þá sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi varaformaður fjárlaganefndar, að miðborgin myndi njóta góðs af því að nýta þessa bletti fyrir verslun, þjónustu eða íbúabyggð.
„Þjóðskjalasafnið og Tollhúsið eru miðsvæðis og það er mjög illa farið með þessi svæði þar sem starfsemin er ekki miðborgarsækin,“ sagði Guðlaugur.
Frétt mbl.is: Vill „mini-mall“ í Tollhúsið
Þá hefur Alþingi einnig samþykkt að heimila sölu húsnæðis dómstóla, lögreglu- og sýslumannsembætta og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði, í tengslum við endurskipulagningu starfsemi þeirra.
Sérstaklega er talað um Austurstræti 19, þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur starfar, og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir dómstólinn, og sömuleiðis Skógarhlíð 6, þar sem Sýslumaðurinn í Reykjavík er til húsa.
Lagt er þá til að selja eignarhlut ríkisins í fasteignum St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, hluta af landsvæðum ríkisins við Litla-Hraun, og land ríkisins á Keldum, á Keldnaholti og við Úlfarsá, í Reykjavík.