Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að gera þurfi ráðstafanir á öllum deildum stofnunarinnar og að töluverð skerðing verði á öryggisþjónustu hennar vegna þeirra fjármuna sem henni var úthlutað í fjárlögunum.
Landhelgisgæslan fékk 100 milljóna króna aukaframlag í fjárlögunum en upphaflega átti hún ekki að fá þá fjármuni. Einnig fékk hún 74 milljónir króna í fjáraukalögum. Stofnunin hafði óskað eftir að minnsta kosti 300 milljónum króna.
Frétt mbl.is: Meira fé í stóra málaflokka
„Við erum fyrst og fremst þakklát fyrir það sem við fáum. Þetta hjálpar verulega en miðað við mikinn niðurskurð og þrengingar undanfarinna ára vorum við búin að reikna út að við þyrftum í það minnsta 300 milljónir til að geta haldið úti lágmarksöryggisþjónustu,“ segir Georg. „Það vantar allnokkuð upp á að svo sé.“
Hann segir hallarekstur Landhelgisgæslunnar vera tilkominn vegna tekjubrests vegna samdráttar í verkefnum fyrir ESB upp á 700 milljónir króna á ári að meðaltali.
Frétt mbl.is: Geigvænlegar afleiðingar fyrir Gæsluna
Spurður hvort segja þurfi starfsfólki segir Georg að gera þurfi einhvers konar ráðstafanir í öllum deildum Landhelgisgæslunnar. „Hvað það verður nákvæmlega er ekki alveg ljóst í augnablikinu en það liggur fyrir að það verður allnokkur skerðing hjá okkur á öryggisþjónustu.“
Georg greindi frá því í samtali við mbl.is á dögunum að hugsanlega þyrfti að skila einni af þyrlunum þremur sem Gæslan hefur yfir að ráða. Hann á ekki von á að það verði að veruleika. „Við vonumst til þess, miðað við þessi fjárframlög, að við getum haldið þessari þyrlu. Hvernig gengur að gera hana út er annað mál.“