Hluti Jökulsárlóns til ríkis

Við Jökulsárlón í Öræfum.
Við Jökulsárlón í Öræfum. mbl.is/RAX

Meðal þess sem Alþingi samþykkti samhliða fjárlögum og fjáraukalögum var heimild til að ganga inn í kaup á jörðinni Fell í Suðursveit, sem á land að Jökulsárlóni. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við Morgunblaðið að með þessu væri komin heimild fyrir stjórnvöld til að neyta lögbundins forkaupsréttar. „Það er fullyrt við mig að ekki liggi fyrir ákvörðun um að nýta forkaupsréttinn en það var sett heimild og fjárheimild í fjáraukalög til að gera það. Svo er einnig heimildargrein í fjárlögum næsta árs til þess að kaupa jörðina.“

Uppboð til slita á sameign

Gengið var frá sölu á jörðinni til Fögrusteina, dótturfélags Thule Investments og fjórðungs staðfestingargreiðsla var greidd fyrir miðjan desember. Kaupverðið var 1.520 milljónir króna. Megn ósamstaða var meðal eigenda um nýtingu jarðarinnar og uppbyggingu. Var farið fram á uppboð hjá sýslumanni til slita á sameign og varð niðurstaða þess að Fögrusteinar keyptu jörðina. Miðað við þessa afgreiðslu Alþingis í gær er líklegt að ríkið verði eigandi jarðarinnar.

Heimilt að selja Málmey

Einnig var endurnýjuð heimildargrein samþykkt sem lýtur að sölu ríkisins á Málmey í Skagafirði, en þreifingar hafa verið um nokkra hríð í þá veru að sveitarfélagið Skagafjörður kaupi eyna af ríkinu. Haraldur segir þessa heimild ekki nýja af nálinni. Hún hafi líka verið til staðar í fyrra og hann segir að óskað hafi verið eftir að heimildin yrði endurnýjuð. Sigríður Svavarsdóttir, formaður sveitarstjórnar Skagafjarðar, segir að áhugi sé hjá sveitarfélaginu á að hafa eignarhald á Málmey á sinni hendi og vonast til að viðræður milli ríkis og sveitarfélags um sölu eyjarinnar komist fljótlega á góðan rekspöl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka