Ratcliffe vill vernda á Grímsstöðum

Jim Ratcliffe, nýr eigandi Grímsstaða á Fjöllum.
Jim Ratcliffe, nýr eigandi Grímsstaða á Fjöllum.

Eini tilgangur breska milljarðamæringsins Jim Ratcliffe með kaupunum á Grímsstöðum á Fjöllum er að vernda svæðið. Þetta kemur fram í frétt um kaupin á vef The Times. 

Í fréttinni segir að jörðin sé ein sú harðbýlasta á Íslandi. Engu að síður hafi Ratcliffe séð eitthvað við hana. Hann sé með kaupunum orðinn stærsti landeigandi á norðaustanverðu Íslandi. Fram kemur að kaupverðið sé ekki gefið upp en að landeigendurnir hafi auglýst hana á 6 milljónir punda, um 837 milljónir króna. 

Ratcliffe er 62 ára, forstjóri Ineos sem á m.a. stóra olíuhreinsistöð í Skotlandi. 

Í grein Times kemur fram að umhverfisverndarsinnar á Íslandi hafi lýst yfir áhyggjum í kjölfar kaupanna. Ratcliffe hafi brugðist hratt við og segist ekki hafa nein áform um uppbyggingu á svæðinu. Hans eini tilgangur sé að vernda landið, sérstaklega árnar sem séu mikilvægar uppeldisstöðvar Atlantshafslaxins.

„Ég vil hjálpa... halda við laxastofnunin hérna, vinna náið með bændunum og nærsamfélaginu, að byggja upp eitthvað sjálfbært og umhverfisvænt,“ hefur blaðið eftir Ratcliffe.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka