Sífellt fleiri í Norður-Ameríku og Evrópu taka upp heiðna siði sem byggja á ásatrú. Oftast eru þetta litlir hópar fólks sem búa í raun til sín eigin trúarbrögð byggt á því sem þau lesa í Snorra-Eddu, Heimskringlu og víðar. Hver hópur túlkar hlutina á sinn veg og fyllir upp í heimildaskarðið með sínum eigin hætti.
Einn af þessum hópum kallar sig New York City Heathens eða Heiðingjar New York-borgar. Hópurinn hittist mánaðarlega til að ræða heiðna siði og norræn goð, en hann hittist einnig yfir hátíðir og er jólablótið þeirra stærst.
Hópurinn samanstendur af litlum kjarna fólks sem býður vinum og öðru ásatrúarfólki að gleðjast með sér. Blaðamaður flokkast sem vinur og fékk að njóta þessara sérstöku hátíðarhalda þar sem norræn fortíð tekur yfir bandaríska nútíð eina langa nótt.
„Við byrjuðum hátíðarhöldin í dag kl. 16.30 við sólarlag og þau munu standa fram á morgun þegar sól rís á ný,“ útskýrir Ethan Stark, en hann ásamt Eriku Palmer, Paul Mercurio og Ryan Androsiglio, myndar kjarna hópsins. Ethan er í lopapeysu með Þórshamarinn Mjölni og galdrastafinn Ægishjálm um hálsinn og hefur látið húðflúra galdrastafinn Vegvísi á upphandlegginn.
„Með þessu jólablóti viljum við fagna komu ljóssins á þessum dimmasta degi ársins. Við kveikjum á þrettán kertum sem tákna þær 13 nætur sem jólin standa. Og í hvert skipti sem við blótum í kvöld og í nótt kveikjum við á nýju kerti. Við byrjum á að blóta Frigg sem er gyðja verndar og fjölskyldunnar til að fá viðeigandi andrúmsloft.“
Ethan segir að það sé mjög misjafnt í hvaða ljósi hvert og eitt þeirra sjái norrænu goðin og gyðjurnar og hvað þau fái út úr trúariðkuninni.
„Sum okkar trúa að goðin séu til í annarri vídd, sum okkar sjá erkitýpur sem standa fyrir viss gildi sem við viljum tileinka okkur, en það má segja að við séum öll að reyna að festa hendur á vissri orku sem goðin búa yfir.“
Þá er komið að borðhaldinu þar sem borinn er á borð jólagöltur og blótað til heilla Freys, árs og friðar. Ryan er virðulegur er hann drekkur heill Freys, klæddur miðaldafatnaði og með handgerða leðurmittistösku sem hann keypti á East Coast Thing [sama orð og þing á íslensku], en það er hátíð bandarísks ásatrúarfólks sem haldin er árlega í Pennsylvaníu.
Umræðuefnið við matarborðið er trúarbrögðin og misjafnar áherslur fólks. Þessi hópur tilheyrir landsamtökum heiðingja, The Troth, sem voru stofnuð út frá öðrum landsamtökum Asatru Folk Assembly, sem þykja leggja of mikla áherslu á germanskan uppruna liðsmanna sinna og hafa rasískar skoðanir.
Erika segir m.a. frá því hvernig vinkonu hennar sem er blökkukona hafi verið úthúðað fyrir að tilbiðja Freyju, þar sem hún hafi ekki réttan hörundslit. Ethan tekur undir hversu fáránlegt það sé að kynþáttur eða uppruni fólks hafi nokkuð með trúarbrögð að gera því það að finna sig í trúarbrögðum og að tengja við þau sé andleg upplifun. Paul bendir einnig á að þótt hann tilbiðji ekki Loka þá sé hann sem samkynhneigður maður mjög þakklátur tilvist hans innan ásatrúarinnar fyrir það hvernig hann beygi skilgreininguna á kynjunum og hlutverkum þeirra í mörgum af sínum ótrúlegu uppátækjum.
Til að sofna ekki eftir þunga og mikla máltíð stingur Paul upp á því að hópurinn fari út í Prospect Park-garðinn að syngja fyrir landvættirnar, þá anda sem búa í náttúrunni.
„Við göngum um og vekjum upp landvættirnar, gleðjum þær með söng og smá fórnum um leið og við heiðrum guðina okkar. Við syngjum hefðbunda jólasöngva með engu kristilegu innihaldi,“ útskýrir Paul.
Á meðan hinir syngja verður Ethan eftir inni og fer að raða kertum í hring á sófaborðið. „Þetta er okkar útgáfa af eldstæði, sem við getum setið í kringum á blótinu,“ segir hann og setur grænt epli með kerti í á hvert borðshorn. „Ég sá þau í íslenska Ásatrúarfélaginu raða svona eplum á greinar við eitthvert tækifæri og fannst það koma mjög vel út, svo ég ætla að stela hugmyndinni,“ segir Ethan og hlær.
Þegar söngfólkið kemur aftur inn er byrjað að undirbúa Lokablót. Erika tilbiður Loka og stjórnar því blótinu honum til heilla. Faðir Eriku er ásatrúamaður og hún ólst upp við sögur af goðunum. „Ég var utanveltu í skóla líkt og Loki var í samfélagi Ásanna og hann varð snemma ímyndaði vinur minn. Þegar fólk setur út á Loka ver ég hann alltaf því hann kom mér í gegnum æskuárin. Í dag er ég með altari heima hjá mér þar sem ég bið til hans,“ segir Erika, sem byrjar að láta blóthorn ganga hringinn þar sem hver og einn segir nokkur orð og drekkur svo heill Loka.
Síðan skal drukkin heill sjálfs alföðurins Óðins og Ethan stjórnar því. „Óðinn er guðinn minn, en ég myndi ekki segja að ég tilbæði hann. Við eigum frekar í jafningjasambandi og hann er mér fyrirmynd sem ferðalangur í leit að viskunni,“ útskýrir Ethan sem fyrst fékk áhuga á ásatrú eftir að hafa rannsakað áhrifavalda rithöfundarins Tolkiens og fann sig þar strax.
Ethan hefur samið texta um Óðin sem hann kveður undir eigin trommuslætti.
„Við vitum ekki hvað forfeðurnir voru að kveða. Við verðum að búa til okkar eigin kveðskap til að fylla upp í götin, eitthvað sem okkur finnst viðeigandi. Það er eins og Norðmaðurinn Einar Selvik sem semur tónlist eins og hann ímyndar sér að hún hafi verið og notar t.d. bæði Völuspá og Hávamál sem texta,“ segir Ethan, sem næst fer að lesa í rúnir sem hann hefur sjálfur búið til. Áður en hann tekur til við að segja félögum sínum hvað næsta ár muni bera í skauti sér, stingur hann sig í vísfingurinn og smyr blóðdropa á augnlokin og segir á þessari fínu íslensku: „Óðinn, ljáðu mér auga, svo ég geti lesið þessar rúnir af nákvæmni og skýrleika.“
Að rúnalestri loknum á „sumbel“ að taka við þar sem heimalagaður mjöður og önnur viðeigandi drykkjarföng verða kneyfuð og sagðar sögur nóttina á enda. Blaðamaður fær ekki annað skilið en að fólk ætli að setjast að sumbli, þakkar fyrir góða veislu og fer út í dimma nóttina með ljós í hjarta og ómeltan gölt í maga.