Marple-málið svokallaða er komið á dagskrá Hæstaréttar, en það verður flutt föstudaginn 3. mars á næsta ári. Í október á þessu ári voru tveir fyrrverandi stjórnendur hjá Kaupþingi og einn af stærri viðskiptavinum bankans dæmdir í fangelsi fyrir umboðssvik og fjárdrátt og hlutdeild í þeim brotum.
Í málinu var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og fjárdrátt. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir hlutdeild í umboðssvikum og fjárdrætti Hreiðars. Með dómunum fóru báðir í refsihámark fyrir viðlíka brot vegna fyrri dóma í málum þeirra. Skúli Þorvaldsson, fjárfestir og stór viðskiptavinur bankans, var dæmdur fyrir gáleysi með því að hafa ekki krafist skýringa á háum upphæðum sem millifærðar voru á reikning félagsins Marple sem var í hans eigu.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af öllum ákærum í málinu.
Einnig voru gerðar upptækar 962 milljónir í málinu, en saksóknari hafði farið fram á að 6,7 milljarðar yrðu gerðir upptækir hjá félögunum Legatum, Bm Trust, Holt Holding, SKLux og upphæðir á reikningi Skúla Þorvaldssonar sjálfs. Höfðu þessar eignir verið kyrrsettar í nokkur ár.