Það er gagnrýnivert og mikið inngrip í friðhelgi einkalífs að óska eftir upplýsingum frá flugfarþegum um reikninga sína á samfélagsmiðlum, að sögn Harðar Helga Helgasonar, lögmanns og sérfræðings á sviði persónuverndar.
Bandarísk yfirvöld spyrja nú Íslendinga um reikninga sína á samfélagsmiðlum svo sem Facebook og Twitter, hyggjast þeir ferðast til landsins.
Frétt mbl.is: Spyrja Íslendinga um Facebook-reikninga
Flugfarþegarnir velja hvort þeir gefa upp þessar upplýsingar. Ný breyting á löggjöf vestanhafs veldur því að farþegar sem hyggjast fara til Bandaríkjanna sem fá undanþágu frá vegabréfsáritun, og taka þannig þátt í svokölluðu „Visa waiver program“ og eru fyrir vikið spurðir um þetta.
Ísland er eitt þeirra 38 landa.
„Þetta er óheillaþróun og enn eitt skrefið í áttina að því að við látum hægt og rólega meira af friðhelgi einkalífs okkar,“ segir Hörður Helgi. Hann segir vægast sagt vafasamt hvort þessi upplýsingasöfnun eigi eftir að gagnast í þeim yfirlýsta tilgangi að hindra aðganga þeirra sem styðja hryðjuverkasamtök til að ferðast til landsins.
Í nútímasamfélagi er sífellt vegið að friðhelgi einkalífsins, að sögn Harðar Helga. Hann segir undanfarna áratugi hafi baráttan um friðhelgina smám saman hafa verið að tapast. Helsta ástæðan fyrir því er meðal annars að fólk gefur upp persónulegar upplýsingar um sig á samfélagsmiðlum og fær í staðinn þjónustu frá þeim sem það telur sig betur sett að búa yfir. „Þetta verður til þess að það verður viðtekin venja að fólk gefi mikið upp um einkalíf sitt. Fyrir vikið eykst þrýstingurinn á þá sem eftir standa sem opna sig ekki eins og bók,“ segir Hörður.
Þær réttarreglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs sem gilda hér á landi taka ekki til þess sem bandarísk stjórnvöld spyrja að eða spyrja ekki um þegar fólk ferðast til landsins án vegabréfsheimildar. Þetta segir Hörður spurður hvort þessi upplýsingagjöf brjóti í bága við friðhelgi einkalífs.
Hörður Helgi telur mögulegt að önnur ríki muni fylgja fordæmi bandarískra stjórnvalda og óska eftir að fá sömu upplýsingar um sína gesti.