Innanlandsflug á athugun

Flugfélagið Ernir flýgur til Vestmannaeyja og fleiri staða.
Flugfélagið Ernir flýgur til Vestmannaeyja og fleiri staða.

Ekkert er flogið innanlands í augnablikinu en þrjár vélar Flugfélags Íslands komust frá Reykjavík til Akureyrar og Egilsstaða í morgun. Næsta athugun er klukkan 12:15. Staðan er svipuð hjá flugfélaginu Erni en tvær vélar félagsins komust frá Reykjavík í morgun, til Húsavíkur og Hornafjarðar.

Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu Erni var flugi til Vestmannaeyja aflýst í morgun og ólíklegt að það verði hægt að fljúga þangað í dag. Annað flug er á athugun.

Ekkert hefur verið hægt að fljúga undanfarna tvo daga og því gríðarlegt álag hjá flugfélögunum tveimur. Óvíst er hvort hægt verður að fljúga meira innanlands í dag en veðurspáin er betri fyrir morgundaginn.

Á sama tíma og ekki hefur viðrað fyrir flug þá er staðan svipuð á þjóðvegum landsins og færð mjög slæm víða í gær og fyrradag.

Veðurspáin á morgun, föstudag:

Vestan 15-23 m/s um landið austanvert, annars breytileg átt 8-15. Yfirleitt úrkomulaust á Suðausturlandi og Austfjörðum, snjókoma norðan til á landinu, en él í öðrum landshlutum. Frost 1 til 7 stig. Víða norðan 8-13 seint um kvöldið og él, en léttskýjað á sunnanverðu landinu.

Snjókoma og slæmt skyggni verður á fjallvegum á Vestfjörðum og eins Holtavörðuheiði fram eftir degi, en hlánar síðan í skamma stund áður en snýst síðdegis í hvassa SV-átt með éljum og skafrenningi.  Á Hellisheiði og í Þrengslum hefur þegar hlýnað upp undir frostmark. Engu að síður má reikna fram yfir hádegi með 18-21 m/s með snjó og krapa, en él og kólnandi aftur síðdegis.

Það er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og hálka í Þrengslum. Hálkublettir eða krapi eru nokkuð víða á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum leiðum en hálka og óveður á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Mjög hvasst er einnig á Fróðárheiði og á norðanverðu Snæfellsnesi. 

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vestfjörðum og víða él eða snjókoma. Þungfært er norður í Árneshrepp og ófært á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum. Norðaustanlands er hálka eða hálkublettir í Eyjafirði en þar fyrir austan eru hálkublettir en að mestu greiðfært með norðausturströndinni.

Það er víða greiðfært á Austurlandi en hálka á Út-Héraði og hálkublettir á fjallvegum. Greiðfært er frá Reyðarfirði að Höfn en annars hálkublettir eða krapi er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert