Móðir 17 ára stúlku tilkynnir skemmtistað til lögreglu

Á Íslandi miðast áfengisaldur við 20 ár.
Á Íslandi miðast áfengisaldur við 20 ár. /AFP

Móðir 17 ára stúlku, Hildur Ýr Ísberg, hefur tilkynnt skemmtistaðinn Hendrix við Gullinbrú til lögreglu en staðurinn bauðst til að gefa dóttur hennar frían bjórkút ef hún leigir skemmtistaðinn undir afmælið sitt.

Dóttir Hildar verður 18 ára eftir mánuð en af því tilefni hafði staðurinn samband við stúlkuna af fyrra bragði í gegnum skilaboð á Facebook eftir að hafa sent henni vinabeiðni. „Þeir óskuðu henni til hamingju með afmælið eftir mánuð, buðu henni að leigja sal hjá sér til að halda upp á afmælið og ef hún gerði það myndi hún fá bjórkút í afmælisgjöf,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Dóttur Hildar þótti skilaboðin undarleg og sýndi móður sinni sem er ekki sátt við uppátæki skemmtistaðarins. „Ég tilkynnti þetta til lögreglu með öllum gögnum. Lögreglan ætlar að rannsaka þetta sem er bara frábært,“ segir Hildur. Hún segist ekki vita um fleiri sem hafa fengið sambærilegt boð frá staðnum en telur líklegt að dóttir sín sé ekki sú eina. 

Hildur segist ekki hafa haft samband við eigendur staðarins en hún telur eðlilegt að málið fari í farveg hjá lögreglu. „Ég geri nú ráð fyrir að þeir segi að hún þurfi ekki að drekka þetta sjálf en það er engu að síður ekki löglegt að gefa henni áfengi. Maður svona ætlast til þess að þessir staðir fari að lögum í þessum efnum,“ segir Hildur. 

Kristján Ólafur Guðnason, stöðvarstjóri lögreglunnar í umdæminu, staðfestir í samtali við mbl.is að mál af þessum toga hafi komið inn á borð lögreglunnar í morgun og er það mál til rannsóknar.

Uppfært kl. 15:14

Í samtali við mbl.is segir eigandi Hendrix að um mistök hljóti að vera að ræða.

„Við erum með aðila sem sér um að bóka fyrir okkur salinn í svona afmælisveislur en ég held það hljóti að vera einhver mistök hjá þeim aðila ef hann hefur sent á einhvern undir aldri,“ segir Haukur Vagnsson, eigandi Hendrix.

Haukur segir að vinum Hendrix á Facebook sé boðið upp á slíkt tilboð en skýrt sé tekið fram á Facebook-síðunni að þeir sem ekki hafi náð tilskyldum aldri skuli afþakka vinskap við skemmtistaðinn á Facebook. Þá bætir hann við að ekki sé endilega um að ræða bjórkút sem stendur til boða heldur bjóði staðurinn einnig upp á óáfenga drykki á kútum.

„Það er alveg af og frá, það er engum afhent áfengi á Hendrix ef að hann er ekki orðinn tvítugur og það fær enginn að koma inn á staðinn eftir kl. 22:00 ef að hann hefur ekki náð 18 ára aldri. Hver einasti maður sem fer inn á staðinn eftir klukkan tíu er spurður um skilríki,“ segir Haukur jafnframt. Til þess að leigja salinn þarf að hafa náð 18 ára aldri en þá er gerð sú krafa að einnig sé ábyrgðaraðili, 20 ára eða eldri. Áfengi aftur á móti er einungis afgreitt þeim sem náð hafa lögaldri að sögn Hauks.

Uppfært kl. 17:01

Upphaflega var fullyrt í fréttinni að móðirin hafi kært skemmtistaðinn. Rétt er að tilkynnt var um atvik af þessum toga til lögreglu sem sá ástæðu til að taka málið til rannsóknar og er því ekki um að ræða formlega kæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert