Safna á meðan „neistinn“ lifir

Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð,” segir Rakel Sigurgeirsdóttir önnur tveggja kvenna sem stendur að fjársöfnun fyrir Færeyinga eftir að óveður gekk yfir eyjarnar um jólin. Auk Rakelar stendur Addy Stein­arrs að söfnuninni.

„Við gerum okkur grein fyrir því að við náum ekki að safna háum upphæðum en þetta snýst aðallega um að sýna í velvild í verki,“ segir Rakel. Hún tekur fram að Færeyingar hafi margoft aðstoðað Íslendinga þegar við höfum þurft á því að halda.   

Frétt mbl.is: Skora á Íslendinga að hjálpa Færeyjum

Hægt er að kynna sér númerið á styrktarreikningum á Facebook-síðunni Færeyjar og Íslendingar eru frændur

Fjölmargir hafa deilt færslunni þar sem fólk er hvatt til að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikninginn. Þær stöllur ákváðu að sitja ekki við orðin tóm heldur drífa sig af stað og safna á meðan „neistinn“ var enn til staðar og fólk að hugsa hlýtt til Færeyinga í hremmingunum.

Af þeim sökum er reikningurinn á kennitölu annarrar þeirra og er ástæðan sú að þær gátu ekki beðið í viku til að stofna nýjan reikning. Rakel segir að reikningurinn sé læstur og ekki verði tekið út af honum nema með samþykki beggja og staðfestingu ræðismanns Færeyja um að hann taki við fénu og færi það færeyska lögþinginu. 

Tryggingar bæta ekki alveg að fullu

Rakel tekur fram að þrátt fyrir að tryggingar bæti margt  þá gera þær það ekki alveg að fullu. Í þessu samhengi vísar hún til dæmis til trjálundar við Klakksvík fór illa í óveðrinu. „Það má heldur ekki gleyma öllum björgunarsveitunum sem stóðu vaktina um jólin. Við vitum það sjálf þar sem allra veðra er von að þá starfa björgunarsveitir óeigingjarnt starf,“ segir Rakel.

Hún hefur sjálf enga beina tengingu við Færeyjar aðra en þá að hafa verið snortin af þeim hlýhug sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina. Hún nefnir stuðning þeirra þegar fjöldi fólks fórst í snjóflóðum sem féllu á Súðavík og Flateyri fyrir 20 árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert