„Það þýðir ekkert að væla“

Það er ekki alltaf blíðan í Grímsey.
Það er ekki alltaf blíðan í Grímsey. mbl.is/Golli

„Það er svona farið að vanta ýmislegt,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar í samtali við mbl.is. Sökum veðurs hefur ekki verið unnt að flytja vörur út í Grímsey síðan á Þorláksmessu en Rúv sagði frá því í gær.

Mjólk, rjómi og brauð er meðal þeirra vara sem farið er að vanta í verslunina í Grímsey en vonir standa til um að hægt verði að koma vörunum út í Grímsey í dag.

„Þau ætluðu að reyna að koma til okkar í dag, ég veit ekki betur en að þeir ætli að reyna það,“ segir Jóhannes, en eyjaskeggjar taka vöruskortinum með stakri ró enda vanir því að veður setji strik í reikninginn. „Þetta er eitthvað sem við erum orðin vön að lenda í. Þetta er svo sem leiðinlegt þegar svona kemur uppá en þetta er eitthvað sem við búum við og búum okkur undir,“ bætir hann við.

Að sögn Jóhannesar er nú suðvestan strekkingsvindur í Grímsey en miklir snúningar eru á veðrinu. Það stefnir þó í ágætis veður á gamlársdag og vonar Jóhannes að unnt verði að tendra áramótabrennu og skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld. „Það þýðir ekkert að væla, bara vera bjartur yfir þessu. Það eru allir bara hressir og kátir hérna í Grímsey,“ segir Jóhannes að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert