Hafa safnað 650.000 fyrir Færeyjar

Þjóðfánar Íslands og Færeyja.
Þjóðfánar Íslands og Færeyja. mbl.is/Ómar

„Það kom mér á óvart hvað fólk var rausnarlegt,“ segir Rakel Sigurgeirsdóttir, annar aðstandenda söfnunarinnar sem sett var af stað í gærkvöldi til handa Færeyingum vegna þess eignatjóns sem varð í eyjunum í óveðrinu nú í lok desember. Nú hafa safnast um 650.000 krónur inn á reikninginn síðan söfnunin var sett í gang.

Frétt mbl.is: Safna meðan „neistinn lifir“

Um klukkan sjö í morgun kannaði Rakel stöðuna á söfnunarreikningnum en þá höfðu 68 einstaklingar styrkt söfnunina um tæpar 400 þúsund krónur. Flestir voru að leggja inn ýmist fimm eða tíu þúsund krónur að sögn Rakelar sem er meira en hún hafði gert sér í hugarlund. Minna er um stærri upphæðir en nú þegar fréttin er skrifuð hafa 133 einstaklingar styrkt söfnunina um samtals 650.000 krónur.

„Þetta er á innan við sólarhring sem að þessi upphæð er að safnast og þetta eru bara einstaklingar sem eru að leggja henni lið,“ segir Rakel. 

Forsetinn sá eini sem hefur svarað

Rakel og Addy Steinarrs standa saman að söfnuninni en þær hafa engin viðbrögð fengið frá þingheimi vegna áskorunnar sem þær sendu á alla þingmenn um að íslensk stjórnvöld skyldu bregðast við og veita Færeyingum stuðning vegna tjónsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson fékk áskorunina einnig senda og er hann sá eini sem hefur svarað bréfinu.

Í svari forseta þakkar hann þeim fyrir að vilja rétta Færeyingum hjálparhönd og viðhalda tengslum þjóðanna með þessum hætti. Segist hann munu leggja söfnuninni lið og vekja á henni athygli.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert