Áfrýjuðu ekki hluta Bjarna í Aurum-máli

Jón Ásgeir Jóhannesson (annar frá vinstri) og Bjarni Jóhannesson (annar …
Jón Ásgeir Jóhannesson (annar frá vinstri) og Bjarni Jóhannesson (annar frá hægri) voru báðir sýknaðir í héraði. Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja ekki máli Bjarna en gerði það þó í máli Jóns Ásgeirs. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað Aurum-málinu svokallaða til Hæstaréttar, en dæmt var í málinu í lok nóvember á síðasta ári. Í málinu voru þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, fundnir sekir um umboðssvik við lánveitingu til félagsins FS38 ehf. vegna kaupa á hlut í Aurum.

Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni, voru aftur á móti sýknaðir í dómi héraðsdóms.

Frétt mbl.is: Lárus sakfelldur en Jóns Ásgeir sýknaður

Lárus og Magnús höfðu áður gefið út að þeir myndu áfrýja málinu. Ólafur Hauksson, saksóknari málsins fyrir hönd ríkissaksóknara, segir í samtali við mbl.is að embætti ríkissaksóknara hafi gefið út áfrýjunarstefnuna, en þar er máli Bjarna ekki áfrýjað, aðeins þeirra Jóns Ásgeirs, Magnúsar og Lárusar.

Segir hann að ríkissaksóknari hafi vegið og metið málið og að Bjarni hafi verið sýknaður öðru sinni í fjölskipuðum héraðsdómi í málinu, en það hafði áður farið eina umferð í héraðsdómi sem síðar var ógilt í Hæstarétti. Segir Ólafur að saksóknari hafi unað við þá niðurstöðu héraðsdóms.

Spurður hverju hann telji sæta að máli Jóns Ásgeirs hafi verið áfrýjað segir Ólafur að fram fari ákveðið mat í hverju máli fyrir sig.

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert