Dómarar við Hæstarétt Íslands eru lítt skuldsettir og eiga margir aðild að íþróttafélögum og öðrum áhugasamtökum. Af tíu dómurum eiga fjórir þeirra eignir á landsbyggðinni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í hagsmunaskráningu dómara.
Benedikt Bogason á lóðir í Bláskógarbyggð en skuldar ekkert í þeim. Hann fær greitt fyrir aukastörf hjá ríkinu og EFTA-dómstólnum en hann situr meðal annars í skólanefnd MH og er varadómari við EFTA-dómstólinn. Hann er Framari og félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi en hér er hægt að lesa nánar um hagmuni hans.
Næstur kemur Eiríkur Tómasson sem á engar fasteignir aðrar en til eigin nota og skuldar ekkert að öðru leyti en skuldir vegna þeirrar fasteignar. Hann á ekki eignir í neinum félögum en á meðal annars aðild að Hinu íslenska bókmenntafélagi og Amnesty International. Hér er hægt að lesa meira um eignir Eiríks.
Greta Baldursdóttir á engar aðrir eignir en þá sem hún býr í og skuldar ekki neitt. Hún sinnir ekki aukastörfum en á aðild að Kvenréttindafélagi Íslands og líkt og aðrir dómarar aðild að Dómarafélagi Íslands. Nánar hér.
Helgi Ingólfur Jónsson á þriðjungs hlut í jörð í Dalasýslu og skuldar ekkert annað en það sem tengist fasteign til eigin nota. Hann er Valsari og prófdómari í Almennri lögfræði við HÍ. Sjá nánar hér.
Ingveldur Einarsdóttir á engar aðrar fasteignir en til eigin nota og skuldar ekkert. Hún er gegnir engum aukastörfum og á ekki hlut í neinum félögum. Hún er félagi í Amnesty International. Sjá nánar hér.
Karl Axelsson á bæði helmingshlut í íbúð í Reykjavík, sem hann býr ekki í sjálfur, auk þess sem hann á hlut í þremur jörðum í Rangárþingi eystra. Jafnframt á hann hlutafé í Valsmönnum hf. Hann skuldar nokkrar milljónir í Arion-banka vegna kaupa á íbúð og jarðarhluta. Karl er félagi í knattspyrnufélaginu Val og í Ferðafélagi Íslands. Sjá nánar hér.
Mjög var fjallað um fjárhagsleg tengsl Markúsar Sigurbjörnssonar í fjölmiðlum á nýliðnu ári. Samkvæmt hagsmunaskráningunni á hann engar aðrar fasteignir en þá sem hann nýtir til eigin nota og skuldar ekki neitt. Hann á ekki eignarhlut í neinum félögum en hefur þegið laun fyrir að starfa sem prófdómari við lagadeild HÍ og við prófraun við að afla sér réttinda sem héraðsdómslögmaður. Markús er félagi í Sögufélaginu, Félagi íslenskra bifreiðareigenda og Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Sjá hér.
Ólafur Börkur Þorvaldsson á hlut í tveimur fasteignum á Selfossi auk þess sem hann á eignarhlut í fasteignum í Grímsnes- og Grafningshreppi. Hann á ekki eignarhlut í félögum og er skuldlaus. Hann er félagi í ungmennafélaginu Breiðablik. Sjá nánar hér.
Viðar Már Matthíasson á helmingshlut í tveimur jörðum í Strandabyggð og á helmingshlut í Skógræktarfélagi Ármúla sf. Þar gegnir hann einnig starfi framkvæmdastjóra en þiggur ekki laun fyrir. Jafnframt tekur hann þátt í ýmsum skógræktarverkefnum auk þess að vera félagi í Fuglavernd, Ferðafélagi Íslands og Skíðagöngufélaginu Ulli. Sjá nánar hér.
Þorgeir Örlygsson, forseti Hæstaréttar, á hlut í jörð í Rangárþingi ytra auk þess sem hann á hlut í íbúð sem hann býr ekki sjálfur í. Hann skuldar ekkert og á ekki hlut í félögum. Hann er varamaður í Feneyjarnefnd Evrópuráðsins auk þess sem hann er félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi, Viðeyingafélaginu, sem er átthagafélag og í Félagi skógarbænda á Suðurlandi. Sjá nánar hér.