Máli Geirmundar Kristinssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, hefur verið áfrýjað af ríkissaksóknara. Geirmundur var sýknaður 4. nóvember af ákæru um umboðssvik, en ákæruvaldið hafði farið fram á fjögurra ára fangelsisrefsingu yfir Geirmundi.
Geirmundur var ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með lánveitingum til einkahlutafélaga. Fjárhæðirnar í ákærunni nema tæpum átta hundruð milljónum króna.
Í ákæru sagði að Geirmundur hefði stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga með því að veita einkahlutafélaginu Duggi 100 milljóna króna yfirdráttarlán 16. júní 2008. Afstaða lánanefndar lá ekki fyrir og áhættu- og greiðslumat fór ekki fram. Þá var endurgreiðslan ekki tryggð með nokkrum hætti.
Sem fyrr segir var Geirmundur sýknaður í héraðsdómi.