Rykið, sem sést á myndbandi sem birt var með frétt Stundarinnar um málefni United Silicon, var kísilryk sem ekki er eiturefni að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, teymisstjóra eftirlitsteymis hjá Umhverfisstofnun.
Fullyrt var í frétt á vef Stundarinnar í gær að kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík hefði að undanförnu losað hættuleg eiturefni í skjóli nætur út úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar og út í andrúmsloftið. Myndband sem sýndi reyk eða ryki sleppt út í andrúmsloftið var birt með fréttinni. Sigríður segir Umhverfisstofnun strax hafa sett sig í samband við fyrirtækið eftir að myndbandið var birt.
„United Silicon gaf okkur þær skýringar að reykhreinsivirki hafi stíflast og að þeir hafi reynt að losa hana, opnað þessa túðu og þá hafi þetta ryk komið út,“ segir Sigríður. Kísilryk sé ekki eiturefni og ekki hættulegt, en því eigi engu að síður ekki að vera hleypt út í andrúmsloftið með þessum hætti.
„Allur reykur að fara í reykræsivirki og þeir eiga að safna kísilrykinu sérstaklega í stórsekki og halda utan um það,“ segir Sigríður og bætir við að kísilrykið sé þess utan framleiðsluafurð sem fyrirtækið geti nýtt. „Þetta á ekki að sleppa út, eða að vera sprautað svona út fram hjá virkinu. Þetta er ekki samkvæmt starfsleyfinu hjá þeim.“
Sigríður segir Umhverfisstofnun munu fara yfir málið frekar með fyrirtækinu, en fram hefur komið í fréttum áður að nokkuð hafi verið um að stofnunin fái misvísandi upplýsingar frá United Silicon. Það sama kann að vera uppi á teningnum nú.
„Þeir sögðu við mig í morgun að þetta væri einstakt tilfelli, en síðan hef ég fengið ábendingar um að þetta hafi gerst oftar,“ segir Sigríður. „Þannig að það er eitthvað sem við ætlum að fara betur yfir með fyrirtækinu.“
Í frétt Stundarinnar gagnrýnir ónafngreindur starfmaður að eftirlitið með starfsemi United Silicon sé veikt. Sigríður segir Umhverfisstofnun hins vegar vera með fyrirtækið í ákveðinni gjörgæslu. „Ég held að við séum að gera eins vel og við getum. Við erum að fylgjast mjög vel með og við erum að kalla oftar eftir upplýsingum og fara oftar í eftirlit til United Silicon en venjulegt getur talist.“
Hún kveðst því ekki geta fallist á að Umhverfisstofnun dragi lappirnar í málinu. „Við skoðum mjög vel hvort þeir séu að fylgja sínu starfsleyfi. Þeir eru með ákveðna úrbótaáætlun í gangi sem við erum að fylgja eftir og svona atvik sýna okkur kannski bara að það sé eitthvað fleira sem við þurfum að taka á.“
Áður hefur verið greint frá því að sérfræðingar Umhverfisstofnunar komi í óboðaðar eftirlitsferðir í kísilmálmverksmiðjuna. Sigríður viðurkennir að slíkar ferðir hafi til þessa aðeins verið farnar á dagvinnutíma. Það sé hins vegar eitthvað sem megi alveg endurskoða.
„Það er þó ekki víst að við séum að fá réttar upplýsingar þegar komið er utan ákveðins tíma því mikið af þessum ferlum og upplýsingar um virkni og skráningu eru sérhæfð atriði og þeir sem vita mest um það eru ekki endilega við á nóttunni,“ segir hún. „Tilgangurinn væri þá bara sá að fylgjast með framleiðslunni.“