Fyrsti fundur á nýju ári í kjaradeildu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Sambands íslenskra sveitarfélaga verður hjá Ríkissáttasemjara þriðjudaginn 10. janúar. Að sögn Ingu Rúnar Ólafsdóttur, formanns samninganefndar Sambandsins, bjóst hún ekki við að óformlegir fundir yrðu milli hópanna fyrir það.
Samningar við félagið hafa verið lausir frá 1. nóvember 2015. Síðasti fundur í kjaradeilunni var rétt fyrir jól. Þá lagði FT fram tilboð að skammtímasamningi en því var hafnað. Í kjölfarið sendi FT frá sér tilkynningu þar sem meðal annars kom fram að erfitt væri „að knýja fram uppbyggilegt samtal um sjálfsagðar og löngu tímabærar umbætur á kjarasamningnum.“
Eftir það sendi Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér yfirlýsingu. Þar kemur meðal annars fram: „Staðreyndin er sú að kröfur FT ganga út á það að tónlistarkennarar og stjórnendur innan FT njóti hærri kjara en sambærileg störf innan Félags grunnskólakennara, Félags leikskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna. Á það getur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ekki fallist.“