Parið, sem leitað hefur verið að við Langjökul í kvöld, er fundið. Þetta segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Parið var nokkuð vel á sig komið að sögn Þorsteins en var kalt. Fólkið var drifið inn í farartæki á vegum björgunarsveitarmanna og ekið með það til Reykjavíkur. Um 180 manns tóku þátt í leitinni að parinu en það fannst skammt frá Skálpanesi.
Fyrr í kvöld greindi mbl.is frá því að á annað hundrað björgunarsveitarmanna leituðu fólksins, sem er á sextugsaldri.
Voru þau í hópsleðaferð á vegum ferðaþjónustu þegar þau urðu viðskila, þegar slæmt veður skall á.
„Og þetta par skilaði sér ekki til baka,“ sagði Þorsteinn þá.
Tilkynningin barst Landsbjörg um klukkan 15.40, en það var um klukkan þrjú sem það uppgötvaðist að parið hefði orðið viðskila.
Frétt mbl.is: Á annað hundrað manns við leitina