Konan segist hafa verið heppin

Bræðurnir eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst.
Bræðurnir eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst. mbl.is/Golli

Maður og kona, sem voru í bifreiðinni sem skotið var á með afsagaðri haglabyssu í Fellahverfi í Breiðholti í sumar, voru leidd fyrir héraðsdóm sem vitni við aðalmeðferð í máli byssubræðra í dag. Konan segist hafa verið heppin að hafa sloppið með skrámur. Bæði segja þau rangt sem bræðurnir héldu fram við skýrslutöku í dag að það hafi verið maðurinn í bílnum sem kom með byssuna.

Frétt mbl.is: Segjast báðir hafa skotið úr byssunni

Bræðurnir gengust við því að hafa hleypt sitt hvoru skotnu af byssunni en segjast þó ekki hafa komið með byssuna á vettvang. Maðurinn sem var á bílnum hafi sótt hana aftur inn í bíl og veist í áttina að þeim en þá hafi eldri bróðirinn afvopnað hann. Yngri bróðirinn viðurkennir þó hafa haft meðferðis hafnarboltakylfu sem var í tösku sem síðar var notuð undir byssuna.

Fór úr að ofan

Segjast vitnin hafa komið akandi að sjoppunni í þeim tilgangi að versla í sjoppunni. Þá hafi verið einhver átök í gangi fyrir utan og hélt konan kyrru fyrir í bílnum allan tímann en maðurinn fór út. Þar segist hann hafa séð kunningja sinn sem hafi verið í einhverjum vandræðum og reynt að hjálpa honum. Í gögnum málsins hafði komið fram að maðurinn hafi farið úr að ofan þegar hann fór út úr bílnum en spurður segist hann ekki hafa gert það til að búa sig undir slagsmál. Segist hann hafa í fyrstu reynt að stía fólki í sundur en svo ekki litist á blikuna og hlaupið í burtu að bílnum.

Þá hafi hann heyrt skothljóð þegar hann var á leiðinni aftur að bílnum en þegar hann var sestur inn í bíl hafi seinna skotið hæft bílinn. Við það brotnaði hliðarrúða bílsins með þeim afleiðingum að kon­an sem sat í farþegasætinu fékk yfir sig glerbrot. Segist konan líta svo á að hún hafi verið mjög heppin að hafa sloppið með litlar sem engar skrámur.

Var konunni mjög brugðið þegar skotið var á bílinn, öskraði og bar fyrir sig hendurnar. Maðurinn segist þá hafa ekið bílnum í burtu og þau haldið heim á leið. Spurður hvers vegna þau hafi ekki haft samband við lögreglu segir maðurinn að hann sé án ökuréttinda og þau hafi verið á bíl móður annars þeirra án hennar vitneskju. Konan segist ekki þekkja bræðurna og hafi aldrei séð þá áður og taldi hún ólíklegt að þeir ættu eitthvað sökótt við sig.

Blóðið á byssunni úr öðrum bræðranna

Marcin, bróðurinn sem gert er að sök að hafa skotið á bílinn, segir að sér hafi einnig verið brugðið þegar skotið lenti á bílnum og stúlkan öskraði. Hann hafi ekki ætlað að skjóta á bílinn heldur aðeins ógna með byssunni.

Eftir að fólkið var ekið í burtu segjast bræðurnir hafa losað sig við byssuna, pakkað henni ofan í tösku og komið fyrir í ruslageymslu í húsinu þar sem móðir þeirra býr. Lögregla fann byssuna síðar en fram hefur komið að sjá hafi mátt blóðkám á byssunni. Segja bræðurnir að annar þeirra hafi verið með sprungna vör eða blóðnasir en þannig hafi blóðið komist á byssuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert