Segjast báðir hafa skotið úr byssunni

Bræðurnir eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst.
Bræðurnir eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst. mbl.is/Golli

Bræðurnir sem ákærðir eru fyr­ir að hafa skotið úr hagla­byssu í Fella­hverfi í Reykja­vík í byrj­un ág­úst viðurkenndu báðir við skýrslutöku í morgun að hafa hleypt skoti af byssunni. Hingað til hafði aðeins annar bræðranna kannast við að hafa hleypt af skoti úr byssunni. Aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un.

Frétt mbl.is: Aðalmeðferð í máli byssubræðra hafin

Aðdragandanum lýstu bræðurnir þannig þeir hafi verið staddir við Leifasjoppu þegar annar þeirra fær símtal frá móður þeirra um að fyrir utan heimili hennar skammt frá séu menn að leita að þeim. Segir yngri bróðirinn að sér hafi borist hótanir með SMS-skilaboðum úr óþekktu númeri sem hann taldi sig vita að kæmi frá umræddum hópi manna. Samkvæmt framburði yngri bróðurins tengist það því að bræðurnir hafi fyrr í vikunni aðstoðað Íslendinga við að túlka eftir að brotist hafi verið inn til þeirra og verðmætum stolið.

Segist hafa fengið byssuna frá hinum hópnum

Þá hafi komið til átaka fyrir utan sjoppuna og einn mannanna í hinum hópnum hafi sótt afsagaða haglabyssu inn í bíl og gengið í átt að þeim en eldri bróðurnum hafi tekist að afvopna hann.

Yngri bróðirinn, Marcin Wieslaw Nabakowski, hafi þá tekið við byssunni af bróður sínum en hann er ákærður fyrir að hafa beint hagla­byss­unni að bif­reið á bíla­stæði við Rjúpna­fell og hleypt af skoti af um tíu metra færi sem hæft hafi hurð og hliðarrúðu bílsins með þeim af­leiðing­um að skemmd­ir hafi orðið á hurðinni. Hliðarrúðan hafi brotnað og kon­an, sem var farþegi í fram­sæti bifreiðar­inn­ar, hafi fengið gler­brot yfir sig og hlotið minni­ hátt­ar skurði. Með hátt­semi sinni hafi maður­inn stefnt lífi og heilsu fólks­ins í bif­reiðinni í „stór­felld­an háska á ófyr­ir­leit­inn hátt.“

mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Við skýrslutöku viðurkennir Marcin að hafa hleypt skoti af byssunni. Hann hafi hins vegar miðað byssunni niður á við og hafi ekki ætlað að hæfa bílinn með skotinu heldur skjóta í jörðina. Segist hann hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna umrætt kvöld en hafi ekki ætlað að valda nokkrum skaða. 

Ætlaði að hræða fólkið

Eldri bróðirinn, Rafal Marek Nabakowski, er ákærður fyrir hættubrot og vopnalagabrot, með því að hafa um kvöldið, við söluturninn Leifasjoppu, á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu manns og konu auk fjölda annarra óþekktra vegfarenda í stórfelldan háska með því að hleypa af skoti úr afsagaðri haglabyssu á almannafæri og beint henni skáhalt upp á við og í áttina að fólkinu eftir að hafa lent í átökum við manninn.

Rafal viðurkenndi við skýrslutöku að hafa hleypt skoti úr byssunni en það hafi ekki verið af ásettu ráði. Hann hafi haldið byssunni upp í loftið til að hræða fólkið úr hinum hópnum en segist hafa óvart hleypt skoti af byssunni. Segjast bræðurnir vita hver maðurinn sem ók bílnum er en þeir þekkist ekki persónulega og konuna þekki þeir ekki heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert