Önnur er landslagsarkitekt og hin er í meistaranámi í lögfræði, en þær eru með græna fingur, enda ólust þær upp á garðyrkjubýli. Systurnar Svava og Hildur hafa ásamt kærustum sínum hafið ræktun á íslenskum humlum til bjórgerðar.
Þetta á upphaf sitt að rekja til þess að fyrir einu ári sátum við systur við eldhúsborðið heima hjá mér ásamt kærustunum okkar og vorum að smakka ólíkustu bjóra, íslenska og erlenda. Ég fór að skoða innihaldslýsingarnar og komst að því að í íslenskum bjór er ekki margt íslenskt nema vatnið. Vissulega hafa einhverjir notað íslenskt bygg til bjórgerðar, en það er ekki mikið. Við fórum að spá í humlaplöntunni og lesa okkur til og komumst að því að humlaplantan vex mjög norðarlega, til dæmis í Danmörku. Fljótlega eftir þessar vangaveltur ákváðum við að senda inn umsókn til framleiðnisjóðs landbúnaðarins, sem veitir styrki til nýsköpunar í landbúnaði. Við sóttum um styrk til að rækta humla til bjórgerðar og fengum hann. Þá varð ekkert aftur snúið, við urðum að ganga alla leið,“ segir Svava Þorleifsdóttir sem ásamt kærasta sínum, Narfa Snorrasyni, og systur sinni, Hildi Guðrúnu Þorleifsdóttur, og kærasta hennar, Axeli Kára Vignissyni, fagnaði fyrstu uppskeru síðast liðið haust.
Þær systur ólust upp á á bænum Hverabakka á Flúðum í Hrunamannahreppi, en þar eru foreldrar þeirra garðyrkjubændur, þau Þorleifur Jóhannesson og Sjöfn Sigurðardóttir, sem rækta tómata.
„Við systur erum báðar búsettar í Reykjavík og erum að fást við allt annað en garðyrkju, ég er landslagsarkitekt og Hildur Guðrún er í meistaranámi í lögfræði. En við erum sveitastelpur innst við beinið og nýtum hvert tækifæri til að fara heim að Flúðum. Pabbi var mjög spenntur fyrir þessu tilraunaverkefni okkar og lánaði okkur stórt plastgróðurhús og síðast liðið vor plöntuðum við humlarótum í tvöhundruð og fimmtíu potta inni í þessu gróðurhúsi heima á Flúðum. Af humlunum eru blómkollarnir notaðir til bjórgerðar, svo jurtin verður að blómstra og til þess þarf hún sól og hlýju. Okkur var sagt að fyrsta árið kæmi engin uppskera, því þá færi öll orkan hjá humlunum í að róta sig, en okkur til gleði blómstraði stór hluti humlanna í lok sumars. Við systur stóluðum á pabba með að vökva plönturnar og líta eftir þeim, en við reyndum að fara eins mikið austur og við gátum. Þessar plöntur eru ótrúlega duglegar og harðgerar og það var gaman að fylgjast með þeim, þær spruttu hratt og vel og gróðurhúsið endaði á að verða eins og frumskógur, plönturnar fóru út um allt og það var nánast myrkur inni í gróðurhúsinu, það var þakið plöntum að innan.“
Þar sem humlarnir blómstruðu fyrr en búist var við varð óvænt uppskera í sumarlok og gátu þau fyrir vikið sent prufur af uppskerunni í brugghúsið Borg hjá Ölgerðinni síðast liðið haust. Svava segir að blóm humlanna gefi hið beiska bjórbragð og yfirleitt séu humlarnir þurrkaðir til bjórgerðar.
„Við prófuðum að láta nota humlana ferska í bjórgerðina, eins og víða er gert erlendis þegar uppskerutíminn er á haustin. En hluti af humlunum okkar var líka þurrkaður, svo það er verið að prófa hvort tveggja, ferska og þurrkaða. Bjórinn er tilbúinn og voru allir mjög sáttir við útkomuna en um fimm hundruð lítrar af bjór komu úr þessari fyrstu uppskeru okkar.“
„Nú ætlum við að sjá til með framhaldið, hvort við förum sjálf af stað með eitthvert vörumerki, okkar eigin bjór. Kannski göngum við alla leið og látum framleiða fyrir okkur, fyrst við erum á annað borð að þessu. En það er heilmikil vinna á bak við þetta og það þarf mikið magn af humlum. Við höfum sagt í gríni við pabba að hann verði bara að hætta í tómataræktun svo við getum lagt undir okkur öll gróðurhúsin til humlaræktunar,“ segir Svava og hlær og bætir við að erlendis séu humlarnir ræktaðir undir berum himni. „Við ætlum líka að prófa að rækta nokkra humla utandyra, í skjóli á sólríkum stað. Það verður gaman að fara af stað aftur í vor og skipuleggja þetta allt betur, og reyna að fá sem mesta uppskeru. Þessi planta er mjög sólelsk og það kom mest af blómum á plönturnar okkar sem voru í suðurhlið gróðurhússins, þar sem sólar naut. Við þurfum að finna út úr því hver næstu skref verða. Við ætlum fljótlega að vera með kynningu á bjórnum okkar og væntanlega fer hann á einhverja bari til sölu, á kútum með krana, en ekki í gleri, það verður seinna.“