„Mannréttindahetja og ekki glæpamaður“

Íslandsdeild Amnesty International afhenti fulltrúum bandaríska sendiráðsins 7.773 undirskriftir í …
Íslandsdeild Amnesty International afhenti fulltrúum bandaríska sendiráðsins 7.773 undirskriftir í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar bandaríska sendiráðsins á Íslandi tóku fyrr í dag á móti undirskriftum 7.773 Íslendinga sem kalla eftir því að Barack Obama bandaríkjaforseti veiti Edward Snowden sakaruppgjöf. Íslandsdeild Amnesty International stóð að undirskrifasöfnuninni en mál Edwards Snowden var hluti af bréfamaraþoni Amnesty árið 2016.

„Íslendingar gripu til aðgerða til að kalla eftir því að Barack Obama [Bandaríkjaforseti] náði Edward Snowden, þar sem Amnesty álítur hann vera mannréttindahetju og ekki glæpamann,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

Frétt mbl.is: Átta þúsund undirskriftir Íslendinga

Edward Snowden hefur verið í útlegð í Rússlandi síðustu ár …
Edward Snowden hefur verið í útlegð í Rússlandi síðustu ár en hann á yfir höfði sér áratugalangan fangelsisdóm í Bandaríkjunum. AFP

Edward Snowden flúði Bandaríkin í júní 2013, eftir að hann afhjúpaði að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) fylgdist með síma- og netnotkun í 193 löndum víðsvegar um heiminn. Að sögn Önnu komu aðgerðir Snowden af stað umræðu um geðþóttaeftirlit sem leiddi til lagabreytinga í Bandaríkjunum og varð til þess að tæknifyrirtæki á borð við Apple gera nú meira til að vernda persónuupplýsingar notenda.

„Hann var í rauninni með almennahagsmuni í huga. Það var náttúrlega verið að fremja mannréttindabrot með því að fylgjast með símum, tölvupóstum, vefmyndavélum og bara einkalífi fólks. Þetta var í rauninni bara eins og yfirvöld væru heima í stofu hjá fólki.“

Anna  segir Amnesty vonast til þess að Obama nýti sína síðustu daga í embætti til að náða Snowden en Donald Trump tekur við sem forseti Bandaríkjanna föstudaginn 20. janúar. Spurð um hvort eitthvað sé vitað um hvernig bandarísk yfirvöld munu bregðast við ákallinu segir Anna erfitt að setja til um það.

„Þegar forsetar láta af embætti er auðvitað spurning hvort þeir sjái tækifæri til að láta eitthvað gott af sér leiða undir lok tímabilsins. Ég held að við getum ekkert spáð fyrir um viðbrögðin en auðvitað vonumst við bara til þess að þau verði jákvæð.“

Samkeppni meðal framhaldsskóla

Að sögn Önnu hefur Íslandsdeild Amnesty International efnt til samkeppni meðal framhaldsskóla landsins síðustu ár um besta árangurinn á Bréfamaraþoni samtakanna.

„Nítján framhaldsskólar skráðu sig til leiks þetta árið og skrifuðu menntskælingar 19.874 aðgerðakort til ellefu landa. […] Þetta árið var ákveðið að efna líka til keppni meðal félagsmiðstöðva á Íslandi og tóku alls ellefu félagsmiðstöðvar þátt og söfnuðu 5.766 undirskriftum.“

Samtals söfnuðu íslensk ungmenni því 25.640 undirskriftum í Bréfamaraþoninu, meðal annars 2.330 undirskriftum fyrir mál Edwards Snowden. „Án ungmennanna væri Bréfamaraþon Amnesty ekki eins öflugt og raun ber vitni,“ segir Anna.

Sem fyrr segir voru undirskriftir Íslandsdeildarinnar alls 7.773 talsins en undirskriftir Amnesty International á heimsvísu eru orðnar 769.609.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert