Mötuneyti lokað vegna músagangs

Mötuneytið í Rimaskóla er lokað vegna músagangs. Myndin tengist fréttinni …
Mötuneytið í Rimaskóla er lokað vegna músagangs. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd/Wikipedia

Mötuneytið í Rimaskóla í Reykjavík verður lokað næstu daga vegna músagangs. Foreldrum barna við skólann barst tölvupóstur þess efnis fyrr í dag en í samtali við mbl.is segir Helgi Árnason skólastjóri að mötuneytið verði lokað þar til Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gefið grænt ljós á enduropnun.

„Ég er nú bara búinn að fá þakkarbréf frá foreldrum um að það skuli vera tekið á þessu,“ segir Helgi. „Þetta er eitthvað sem maður vildi taka á strax. Við stöndum hér fyrir fjölmennu mötuneyti og höfum lagt mikla áherslu á að þrif og umgengni sé til fyrirmyndar […] Það var ekkert um annað að ræða.“

Ekki er enn vitað hversu alvarlegt vandamálið er en það verður kannað á næstu dögum.

„Við munum bara gera allt til þess að [laga þetta]. Við fáum meindýraeyði og munum svo þrífa vel og fara í algjöra allsherjar hreingerningu á tækjum, búnaði og húsnæði mötuneytisins. Láta fara yfir hurðir og allt mögulegt. Við þrýstum á að þetta verði vel gert.“

Að sögn Helga eru alltaf einhverjar spenntar músagildrur í mötuneytinu en þær virðast ekki hafa dugað til í þetta skiptið.

„Miðað við stærð eldhússins reiknum við með að þetta gæti staðið út vikuna eða bara þangað til Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefur okkur leyfi. Ég kallaði á þá og það eru þeir sem loka eldhúsinu. Það er líka þeirra að gefa okkur leyfi til að opna aftur.“

Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla
Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert