Ríkissjóður ákvað í dag að nýta forkaupsrétt vegna jarðarinnar Fells í Suðursveit á grundvelli laga um náttúruvernd, en jörðin er á náttúruminjaskrá. Jörðin Fell á land að austurströnd Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi en lónið er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Kemur þetta fram á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins en málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í dag þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti það. Eignin var seld á nauðungarsölu í haust að beiðni eigenda jarðarinnar í þeim tilgangi að slíta sameign. Jörðin hafði áður verið seld til Fögrusteina, dótturfélags Thule Investments.
Söluverðið var 1.520 milljónir króna og gengur ríkissjóður inn í kaupin á því verði, en gert var ráð fyrir kaupunum í fjáraukalögum ársins 2016. Frestur ríkissjóðs til þess að ganga inn í kaupin rennur út á morgun 10. janúar samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi en fresturinn var upphaflega til 11. nóvember en var framlengdur þar til á morgun.
Talsverð umræða skapaðist um jörðina Fell eftir að fréttist að hún væri til sölu og hvöttu margir til þess að ríkissjóður keypti hana í ljósi þess að hún liggur að Jökulsárlóni. Meðal þeirra sem lýstu þeirri skoðun sinni að ríkið ætti að kaupa jörðina var Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.