„Hefur setið djúpt í hnakkinum“

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, afhenti Bjarna Benediktssyni „nútímalykil“ að forsætisráðuneytinu í Stjórnarráðshúsinu fyrir skömmu. 

„Það sem ég vildi segja er að þú getur komið óhræddur hér inn. Hér er mjög gott starfsfólk, mikil þekking og það er mjög hjálpsamt og fljótt að bregðast við," sagði Sigurður Ingi Jóhannsson er hann afhenti Bjarna Benediktssyni lyklana. 

Bjarni hafði þetta að segja: „Ég veit að ég get dregið lærdóm af því hvernig þú hefur hagað þínum störfum á þeim tíma sem þú hefur verið í embætti. Eins og góður hestamaður hefurðu setið djúpt í hnakkinum  og verið með traust taumhald, ekki látið hluti hagga þér mikið og verið afskaplega traustur og farsæll. Ég tek lærdóm af þínum tíma með mér í mitt starf hér í ráðuneytinu," sagði hann. 

„Mér finnst ég vera á mjög miklum tímamótum. Ekki bara persónulega heldur í stjórnmálum landsins. Það er léttir á margan hátt að þessu tímabili óvissu sé lokið, að okkur hafi tekist að koma okkur saman um grundvöll fyrir nýju stjórnarsamstarfi,“ bætti Bjarni við. „Það er mjög mikil birta í huga mínum í dag.“

Spurður hvort það hafi verið draumur hans að verða forsætisráðherra, sagði Bjarni að það hafi ekki verið sjálfstætt og sérstakt markmið. „Mér hefur alltaf liðið þannig innra með mér að ef til þess kæmi þá vildi ég að það gerðist fyrir það að mér hefði verið treyst fyrir því í kosningum og mér finnst að við höfum átt góða innistæðu eftir niðurstöðu síðustu kosninga til þess að leiða þessa ríkisstjórn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert