Hættuástand myndast reglulega í Reynisfjöru og Kirkjufjöru en að sögn Kristjáns Daníelssonar, forstjóra Reykjavík Excursions, er veruleg þörf á að bæta þar úr öryggisráðstöfunum. „Þetta er búið að vera mikið áhyggjuefni í mjög langan tíma. Þetta er ófremdarástand.“
Kristján segir starfsmenn Reykjavík Excursions gera allt til að tryggja að fólk viti af hættunni en að það sé ekki alltaf nóg.
„Við brýnum fyrir leiðsögumönnum og bílstjórum að láta fólk vita [af hættunum] en þetta er mjög erfitt. Ég veit ekki hvernig ég á að orða það en sumir fara ekkert sérstaklega vel eftir fyrrimælum. Leiðsögumaður sem er kannski með 20-30 manns á náttúrulega mjög erfitt með að setja einhverjar kvaðir á hópinn. Þannig að það þarf verulegt átak í einhvers konar stýringu á svæðinu. Þetta er virkilega áhættusamur staður sem þarf að skoða með grafalvarlegum augum. Mér finnst algjör synd að það skuli aftur og aftur koma upp óhöpp og þá kemur oft einhver skammtímalausn en þarna verður bara yfirvaldið að stíga inn í, að sjálfsögðu í samstarfi við lögreglu, Landsbjörg og ferðaþjónustuaðila. Þetta verður að vera samstillt átak.“
Kristján er alls ekki einn um þessa skoðun en á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar hafa fjölmargir deilt myndum, myndböndum og frásögnum af atvikum þar sem hættuástand hefur myndast, bæði við Reynisfjöru og á öðrum fjölförnum ferðamannastöðum um landið.
Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, er ferðamálafræðingur að mennt og hefur sérhæft sig í stýringu ferðamanna. Spurður um hvað sé hægt að gera til að tryggja öryggi ferðamanna í Kirkjufjöru og Reynisfjöru segir hann: „Það er bara mjög auðvelt og algjörlega kýrskýrt í mínum huga.“
Að sögn Jónasar snýst lausnin um að stýra ferðamönnum á leið sinni um landið en tryggja þarf fjármagn til að breyta því sem breyta þarf og byggja upp innviði.
„Okkur er stýrt, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Í umferðinni eru það ljós og biðskylda, á flugvöllum eru það skilti sem benda okkur á hvar leigubílarnir standa og svo framvegis. Aðferðin sem er hvað mest beitt í heiminum byggir á þremur þáttum. Það er svokölluð handstýring, þar sem ferðamanninum er beint með stígum, köðlum örvum og slíku. Svo er það beinstjórnun, það eru lög og reglugerðir sem segja til um hvað við viljum að fólk geri eða geri ekki. Það má til dæmis ekki keyra á yfir 90 km hraða. Undir beina stjórnun fellur líka varsla, landvarsla eða löggæsla. Þriðji þátturinn er svo fræðsla og upplýsingar en það geta verið skilti eða vefsíður.“
Jónas segir nauðsynlegt að samblandi af þessum þremur aðferðum sé beitt og bendir á að í Reynisfjöru og Kirkjufjöru megi nú þegar finna skilti.
„Það er gott og gilt, þau gegna ákveðnu hlutverki en ná ekki til næstum því allra. Á svona stað þar sem að er sértæk hætta og þessi fjöldi ferðamanna þarf auðvitað að vera landvarsla. Þarna þarf að vera heilsárs landvörður sem er á staðnum frá átta á morgnana til sjö eða átta á kvöldin, mismunandi eftir árstíð og fjölda ferðamanna.“
Landvörður þyrfti að vera á svæðinu bæði til að fræða ferðamenn um hættur og annað en jafnframt til að tryggja að þeir fylgi eftir þeim reglum sem gilda um umgengni á svæðinu. Landvörður þyrfti því að geta gert áhættumat og breytt aðgengi í fjörunni eftir aðstæðum.
Ef aðstæður eru erfiðar gæti hann sett borða í miðja fjöru og jafnvel fært hann ofar ef aldan hækkar.
„Á sama hátt þarf að vera fjármagn til þess að lögregla geti mætt á staðinn, kannski tvisvar, þrisvar, fjórum eða fimm sinnum á dag, bara eftir aðstæðum og fjölda ferðamanna. Landavarsla er númer eitt, tvö og þrjú.“
Umhverfisstofnun ber ábyrgð á Kirkjufjöru en Reynisfjara er í landi í einkaeign. Jónas segir þó ekkert því til fyrirstöðu að yfirvöld myndu semja við landeigendur um að vera með aðstöðu fyrir landvörð á svæðinu.
„[Umhverfisstofnun] þarf fjármagn til þess að geta haft landvörð þarna, þeir ná því á sumrin en ekki á veturna, nema að litlu leyti. Í Reynisfjöru þarf ríkið auðvitað bara að gera samkomulag við landeigendur. Það er þekkt víða um heim.“
Jónas segir fjölmargar stofnanir og fyrirtæki hafa þrýst á yfirvöld síðustu ár um að bæta úr fjármögnun vegna ferðamannaþjónustu.
„Það er kannski að einhverju leyti ósanngjarnt að segja að það sé skilningsleysi en ég veit ekki hvað ég á að segja þegar vinnuhópar sem skipaðir eru fólki úr ferðaþjónustu, frá Umhverfisstofnun, lögreglu, Landsbjörg og fleirum setja fram tillögur um brýnar aðgerðir sem grípa þarf til svo ekki fari illa, og það er ekki farið eftir þeim nema kannski að litlu leyti.“