Einn á ísjaka við Grænland í ár

Ítalski ævintýramaðurinn Alex Bellini er staddur hér á landi. Hann hefur róið yfir bæði Kyrrahafið og Atlantshafið en næsta stóra verkefni hans er að dvelja einn á borgarísjaka í ár við Grænlandsstrendur. Alex hélt fyrirlestur í Orkustofnun í dag en hann mun á næstu dögum ganga yfir Vatnajökul.

Markmið ferðarinnar er að skrásetja sögu og feril ísjakans á meðan hann bráðnar í hafið. Öðrum þræði er það að vekja athygli á hlýnun jarðar og afleiðingum hennar. Borgarísjökum sem hafa brotnað af Grænlandsjökli getur hvolft með litlum fyrirvara og er það helsta hættan að sögn Bellinis, því er verið að finna leiðir til að geta spáð fyrir um slík tilfelli.

Sjálfur mun Bellini dvelja í björgunarhylki sem er hannað til að geta staðið af sér flóðbylgjur og þar mun hann geyma vistir sínar.

Árið 2005 reri hann 11.000 km yfir Miðjarðarhafið og þvert yfir Atlantshafið á 227 dögum.

Árið 2008 reri hann 18.000 km yfir Kyrrahafið frá Perú til Ástralíu á 294 dögum.

mbl.is hitti Alex Bellini í Orkustofnun í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka