Takmarkanir á eignarhaldi nauðsynlegar

Grímsstaðir á Fjöllum. Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði 2013 um endurskoðun …
Grímsstaðir á Fjöllum. Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði 2013 um endurskoðun laga um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi, taldi einhverjar takmarkanir á eignarhaldi nauðsynlegar.

Tillögur nefndar sem innanríkisráðherra skipaði árið 2013 um endurskoðun laga um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi, hefðu væntanlega ekki lagt stein í götu breska kaupsýslumannsins  Jim Ratcliffe við kaup á Grímstöðum á Fjöllum, hefðu þær verið samþykktar af alþingi. Tillögurnar hefðu þó engu að síður torveldað erlendum aðilum utan EES svæðisins slík jarðarkaup.

Í dag er hver umsókn erlendra aðila utan EES metin sérstaklega, en sömu lög gilda um erlenda aðila innan EES og Íslendinga.

Sérstök nefnd var skipuð í innanríkisráðherratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, til að vinna skýrslu um erlendar fjárfestingar og endurskoðun laga þeim tengdum. Nefndin, sem í sat núverandi dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen, skilaði skýrslunni í lok maí 2014.

Í júlí sama ár var greint frá því á vef innanríkisráðuneytisins að vinna við að útfæra tillögur nefndarinnar væri hafin í ráðuneytinu og í atvinnuvegaráðuneytinu og að í framhaldi yrði fjallað um þær í ríkisstjórn. 

Flest ríki með einhverjar takmarkanir

Í skýrslunni, sem mbl.is er ekki kunnugt um að hafi fengið þinglega meðferð, kemur fram að nefndin telji að erlend fjárfesting „auki hagsæld og fjölbreytileika í íslensku samfélagi og atvinnulífi“ og því beri að draga úr „undanþágum eins og kostur er.“

Nefndin taldi engu að síður vissar takmarkanir geta reynst nauðsynlegar. „Ljóst er að flest ef ekki öll lönd hafa slíkar takmarkanir gagnvart fjárfestingum frá þriðju ríkjum,“ segir í skýrslunni, þar sem kvótakerfi Austurríkis er nefnt sem dæmi.  En í mörgum þeirra ríkja sem nefndin skoðaði til samanburðar voru stærð lands eða fjölda jarðar settar tilteknar takmarkanir.

Lagði nefndin til að slíkar takmarkanir yrðu einnig settar á jarðarkaup utan þéttbýlis hér á landi. Stærðartakmörkunin skyldi miðast við einn hektara og eina lóð fyrir hvern einstakling. Væri hins vegar um jarðarkaup undir atvinnustarfsemi að ræða, þá lagði nefndin til að stærðartakmörkunin miðaðist við 5-10 hektara.

Innanríkisráðuneytið er í dag með viðmiðunarreglur vegna kaupa útlendinga, þó hver umsókn sé metin sérstaklega, þar sem 1 hektara stærðartakmörkun gildir fyrir einstakling, en 25 hektarar sé um atvinnustarfsemi að ræða.

Takmarkanir á landsvæði með menningasögulegt gildi

Nefndin taldi einnig rétt að skoða „sérstaklega hvort útfæra eigi ákvæði sem takmarkar heimildir aðila frá ríkjum utan EES til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum eða landsvæðum sem þykja hafa sérstakt menningarsögulegt gildi.“ Þetta ætti m.a. við um fasteignir innan þjóðgarða eða sérstök verndarsvæði.“

Líkt og áður sagði þá nær tillaga nefndarinnar aðeins til aðila utan EES og þar með ekki til Ratcliffe. Nefndin var sammála afnámi þáverandi innanríkisráðherra á þeim hömlum sem Innanríkisráðuneytið, setti á jarðarkaup EES aðila undir stjórn Ögmundar Jónssonar. Slíkar hömlur eru að mati nefndarinnar ólíklegar til að hljóta samþykkt EFTA dómstólsins.

Til álita að setja takmarkanir á fjölda og magn

Sú skoðun nefndarinnar að til álita kæmi að meta þyrfti hvort setja þyrfti takmarkanir á uppkaup jarða eða landsvæða í miklu magni, gæti þó náð til Ratcliffe, líkt og annarra umfangsmikilla jarðarkaupenda. En auk jarðarinnar á Grímstöðum á Fjöllum, hefur Ratcliffe einnig keypt þrjár jarðir í Vopnafirði, sem og unnið að því að kaupa jarðir í Þistilfirði.

Nefndin segir í umfjöllun sinni þó mikilvægt að jafnræðis gæti við setningu slíkrar löggjafar og að hún gildi þá jafnt fyrir íslenska ríkisborgara sem aðra, en við leyfisveitingu telur nefndin t.d. mega  taka mið af fyrirhugaðri notkun, þjóðhagslegri hagkvæmni, áhrifum á umhverfi og samfélag, afstöðu sveitarstjórnar, gagnsæi eignarhalds og þörf fyrir land með tilliti til notkunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka