Var frestur ríkisins til að taka afstöðu til nýtingar forkaupsréttar á jörðinni Felli við Jökulsárlón liðinn þegar ákveðið var að nýta forkaupsréttinn 9. janúar? Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag rann hann út 3. janúar en í frétt mbl.is 8. nóvember kemur fram að sýslumaðurinn á Suðurlandi hafi framlengt frestinn til 10. janúar.
Í frétt mbl.is: Fresturinn framlengdur til 10. janúar, sem var skrifuð 8. nóvember í fyrra kemur fram að sýslumaðurinn á Suðurlandi hafi daginn áður ákveðið að framlengja frest ríkisins til að taka afstöðu til nýtingar forkaupsréttar á jörðinni Felli við Jökulsárlón til 10. janúar nk. Þar er vísað í svar fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Frétt mbl.is: Fresturinn var liðinn
Ríkissjóður ákvað á mánudag að nýta forkaupsrétt vegna jarðarinnar Fells í Suðursveit á grundvelli laga um náttúruvernd, en jörðin er á náttúruminjaskrá. Jörðin Fell á land að austurströnd Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi en lónið er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Kemur þetta fram á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins en málið var rætt á ríkisstjórnarfundi á mánudag þar sem Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra kynnti það. Eignin var seld á nauðungarsölu í haust að beiðni eigenda jarðarinnar í þeim tilgangi að slíta sameign. Jörðin hafði áður verið seld til Fögrusteina, dótturfélags Thule Investments.
Söluverðið var 1.520 milljónir króna og gengur ríkissjóður inn í kaupin á því verði, en gert var ráð fyrir kaupunum í fjáraukalögum ársins 2016. Frestur ríkissjóðs til þess að ganga inn í kaupin rennur út á morgun 10. janúar samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi en fresturinn var upphaflega til 11. nóvember en var framlengdur.
Talsverð umræða skapaðist um jörðina Fell eftir að fréttist að hún væri til sölu og hvöttu margir til þess að ríkissjóður keypti hana í ljósi þess að hún liggur að Jökulsárlóni. Meðal þeirra sem lýstu þeirri skoðun sinni að ríkið ætti að kaupa jörðina var Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.