Helena á söngsviðinu í sextíu ár

Helena Eyjólfsdóttir hefur sungið með ýmsum hljómsveitum í 60 ár …
Helena Eyjólfsdóttir hefur sungið með ýmsum hljómsveitum í 60 ár en Helenaer fyrsti sólódiskur hennar. Ljósmynd/Sveinn Speight

Landsmenn hafa notið þess að hlusta á Helenu Eyjólfsdóttur syngja opinberlega í um 60 ár, bæði með hljómsveitum á sviði og á plötum, en fyrsta eiginlega sólóplata hennar, Helena, kom út á dögunum og verður henni fylgt eftir með útgáfutónleikum á Akureyri og í Reykjavík í febrúar eða mars.

Helena segir að Jón Rafnsson, kontrabassaleikari og eigandi JR Music, hafi hringt í sig fyrir um þremur árum og borið hugmyndina um diskinn undir sig. „Ég tók strax vel í að gefa út disk og úr varð að ég fékk að velja lögin sjálf,“ rifjar hún upp. „Kunningi minn sagði að ég ætti bara að hringja í þessa stráka sem væru að semja lög og biðja þá um að semja fyrir mig. Mér fannst það fráleitt en eftir því sem ég hugsaði málið betur sá ég að þetta var ekki svo vitlaust, fékk lög og valdi úr.“

Helena segir að hún hafi lagt áherslu á að velja gömul, falleg lög og fengið textaskáld til þess að semja texta þar sem þess þurfti. „Þetta tók allt sinn tíma,“ segir hún og er ánægð með árangurinn.

Þekktir aðstoðarmenn

Á disknum eru 11 lög. „Ég fékk Magnús Eiríksson til þess að semja fyrir mig lag og það fannst mér mjög mikill heiður,“ segir Helena. Jóhann G. Jóhannsson á einnig eitt lag á plötunni, Ingvi Þór Kormáksson tvö lög eins og Karl Olgeirsson. Þess má geta að lagið „Reykur“ eftir Karl og Trausta Örn Einarsson hefur verið í 4. sæti vinsældalista Rásar 2 á Ríkisútvarpinu undanfarnar fjórar vikur eða frá því platan kom út.

„Ég gerði það sem ég hélt að ég myndi ekki gera aftur, söng lagið „Í rökkurró“ inn á plötuna,“ segir Helena. Ástæðuna segir hún vera þá að áður hafi fjórum lögum verið troðið á tveggja laga disk og fyrir vikið hafi þurft að stytta þau. „Mér fannst það svo snubbótt. Þetta lag hefur fylgt mér alla tíð, ég hef sungið það í gegnum tíðina og enginn annar og því ákváðum við að hafa það með í þeim stíl sem það var í í upphafi.“ Karl Olgeirsson útsetti öll lögin og stjórnaði upptökum. „Það var mín gæfa,“ segir Helena. „Hann er algjör snillingur, drengurinn.“

Helena byrjaði barnung að syngja. Hún minnir á að dægurlagaferillinn hafi byrjað um 15 ára aldurinn og við það miði hún. „Ég kom fyrst fram opinberlega á styrktartónleikum á vegum SÍBS í Austurbæjarbíói, söng fyrir hlé með hljómsveit Gunnars Ormslev. Þetta var upphafið, 11 sýningar í Austurbæjarbíói. Þá kviknaði eitthvað og eldurinn logar enn.“

Söngkonan heldur röddinni vel og hún er þakklát fyrir það. „Ég held áfram að syngja á meðan hún er til staðar,“ segir Helena og leggur áherslu á að hún þurfi ekki lengur að æfa sig. „Það er alltaf gaman að syngja en ég ætla ekki að syngja inn á annan sólódisk.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert