Mislæg gatnamót á dagskrá

Að sögn Jóns hefjast framkvæmdir við gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar …
Að sögn Jóns hefjast framkvæmdir við gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar á næstunni. Kort/Loftmyndir ehf.

„Hafnarfjarðarbær fagnar ákvörðun nýs samgönguráðherra, Jóns Gunnarssonar, um að ráðist verði í útboð og gerð mislægra gatnamóta á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar strax í upphafi á þessu ári.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnafjarðarbæ en í viðtali í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun sagði Jón að framkvæmdir við gatnamótin væru á dagskrá.

„Hættulegustu gatnamót landsins eru til dæmis í Hafnarfirði, Krýsuvíkurgatnamótin, og þau eru á dagskrá. […] Framkvæmdirnar eru bara að hefjast, ég mun setja það bara mjög fljótlega af stað,“ sagði Jón.

Í tilkynningunni segir að mislæg gatnamót séu orðin „löngu tímabær framkvæmd“ enda séu „aðstæður í og við gatnamótin stórhættulegar eins og fjöldi árekstra og slysa á svæðinu síðustu mánuði bera glöggt vitni.“

Hafnarfjarðarbær hefur lengi kallað eftir aðgerðum á gatnamótum Reykjanesbrautar og …
Hafnarfjarðarbær hefur lengi kallað eftir aðgerðum á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar sem Jón segir vera „hættulegustu gatnamót landsins.“ mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Vitnað er í Harald L. Haraldsson bæjarstjóra sem segist fagna staðfestingu ráðherrans. „Ég vænti þess að hlutirnir gangi nokkuð hratt fyrir sig […] að  framkvæmdir hefjist á vormánuðum og verði lokið fyrir árslok.“

Reykjanesbrautin liggur í gegnum Hafnarfjörð og hefur bæjarfélagið lengi kallað eftir umbótum við gatnamótin. „Gatnamótin eru mikið öryggismál fyrir m.a. íbúa Vallahverfis og alla þá sem erindi eiga á stækkandi atvinnusvæði í Hellna- og Kapelluhrauni.“

Í viðtalinu sagði Jón að mislæg gatnamót væru fyrsta skrefið í átt að því að bæta aðstæður á og við Reykjanesbrautina en kallað hefur verið eftir miklum umbótum á síðustu árum.

„Það hefur auðvitað mikið verið gert þar með tvöföldunina á sínum tíma en það hefur ekki verið gert alla leið, með tilheyrandi afleiðingum og það er alveg rétt, verkefnin eru mörg og þau eru mjög brýn í þessum málaflokki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert