Sagðir hafa kysst og þuklað á börnum

Lögregla er sögð hafa skipt sér af mönnunum um klukkan …
Lögregla er sögð hafa skipt sér af mönnunum um klukkan 16 í dag. mbl.is/Eggert

Mikil umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlasíðum fyrir íbúa Reykjanesbæjar í kvöld, vegna karlmanna sem munu hafa áreitt börn í strætisvagni í bæjarfélaginu.

Á vef Víkurfrétta segir að í að minnsta kosti tveimur lokuðum hópum, fyrir íbúa bæjarins, komi fram að börn hafi hringt úr strætisvagninum á neyðarlínuna í dag, og óskað aðstoðar lögreglu vegna áreitis frá erlendum karlmönnum.

Þar eru þeir sagðir hafa bæði kysst og þuklað á börnum í strætisvagninum.

Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta mun lögregla hafa skipt sér af mönnunum um klukkan 16 síðdegis í dag, þegar vagninn kom að strætisvagnastöð við Nettó í Njarðvík. Segir enn fremur að klukkustund síðar hafi mennirnir verið komnir aftur um borð í strætisvagn í Reykjanesbæ, og byrjað að áreita börn að nýju.

Þá virðist sem foreldrar ætli sér að mæta í strætisvagna í Reykjanesbæ á morgun, eftir að skóla lýkur, til að hafa eftirlit með börnum í vögnunum.

Ítarlegri umfjöllun Víkurfrétta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert