Réttarhöld yfir átta manns, sem ákærð eru fyrir að hafa svikið allt að 300 milljónir króna úr ríkissjóði, eru hafin í Héraðsdómi Reykjaness. Einn þeirra, fyrrverandi starfsmaður ríkisskattstjóra, er í ákæru sagður hafa leikið lykilhlutverk í svikunum, en af hinum ákærðu eru sex karlar og tvær konur.
Við upphaf aðalmeðferðar bað verjandi mannsins dómara um orðið, en þrír dómendur sitja í dómnum í málinu. Sagðist hann vilja vekja athygli á því, sem runnið hefði upp fyrir honum síðdegis í gær, að einn dómendanna væri vanhæfur til að dæma í málinu.
Sagði hann dómarann hafa gefið út úrskurð, 5. nóvember 2010, um hlustun og hljóðritun á síma skjólstæðings síns. Á grundvelli þess úrskurðar gætu hafa fengist gögn sem ráðið gætu úrslitum í málinu.
„Með þessari hlustun er í raun verið að athuga hvort hann tjái sig um málið við aðra,“ sagði verjandinn og bætti við að Hæstiréttur hefði úrskurðað gegn notkun hlustana með þessum hætti.
„Ég tel að dómari sem hefur komist að þessari niðurstöðu undir rekstri málsins, sé ekki hæfur til setu í dómnum.“
Þá sagði hann að hafa verði í huga að sakborningurinn hafi engan málsvara við hlustun sem þessa, fyrir utan aðeins dómarann.
Sækjandinn í málinu sagðist ekki sammála ofangreindum sjónarmiðum. Annar verjandi tók hins vegar undir þau.
Dómarar hafa þá beðið um stutt hlé að svo stöddu.
Málið kom upp fyrir rúmum sex árum, í september árið 2010, og er fólkið sakað um að hafa notað sýndarfyrirtæki til að svíkja féð út úr virðisaukaskattskerfinu. Fyrirtækin sem fólkið hafi komið á fót hafi þá haft enga raunverulega starfsemi, en fengið í krafti falsaðra gagna og aðgangs að starfsmanni ríkisskattstjóra stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem voru aldrei reist.
Fyrirtæki gátu þá fengið sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti meðan á uppbyggingu stóð og tókst fólkinu þannig að svíkja út 270 milljónir króna.