Leitarfólk úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kallað út vegna leitarinnar að Birnu Brjánsdóttur. Um er að ræða sérhæft leitarfólk sem mun einbeita sér að svæðinu þar sem síðast sást til Birnu og leita skipulega út frá því.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Síðast sást til Birnu í eftirlitsmyndavél við Laugaveg 31. Leitin að henni á að hefjast í hádeginu.
„Svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í gærkvöldi og hefur síðan unnið að gagnaöflun með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem m.a. leiddi til þeirrar sameiginlegu ákvörðunar lögreglu og Slysavarnafélagsins Landsbjargar að hefja leit að Birnu en laust fyrir miðnætti var óskað eftir aðstoð sporhunds bæði í miðborg Reykjavíkur og við Flatahraun í Hafnarfirði,“ segir í tilkynningunni.