Polar Nanoq snúið við til Íslands

Skipið Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn.
Skipið Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is

Grænlenska skipið Polar Nanoq hefur snúið af leið sinni og er nú á leiðinni aftur til Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnarformanni fyrirtækisins Polar Seafood, sem á skipið, fengu skipverjar bón um að snúa við aftur til landsins þar sem ræða þyrfti við þá. Samkvæmt heimildum mbl.is má búast við skipinu til Íslands eftir um átján klukkustundir, þegar þetta er skrifað. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er þyrla Landhelgisgæslunnar nú á leið með íslenska lögreglumenn að skipunum Polar Nanoq og danska herskipinu Triton. Þessar upplýsingar hafa þó ekki fengist staðfestar hvorki frá lögreglunni né Landhelgisgæslunni. 

Triton var á ferð frá Íslandi til Grænlands, sem áður hafði verið ákveðin, þegar íslensk lögregluyfirvöld höfðu samband við skipið og báðu skipverja þess um aðstoð í lögregluaðgerð. Þetta segir Erik Bøttger, fjölmiðlafulltrúi danska hersins, í samtali við mbl.is. „Íslenska lögreglan bað um aðstoð aðgerðastjórnar danska hers­ins fyr­ir Græn­lands­svæðið um 5-6-leytið (að íslenskum tíma),“  segir Bøttger.

Hann segir að íslensk lögregluyfirvöld hafi ekki beðið um neina aðra aðstoð frá danska hernum. „Nei, þetta er eina aðstoðin sem hefur verið farið fram á,“ segir Bøttger.

Fréttin er uppfærð



Staðsetning skipanna um klukkan 18:30 í kvöld.
Staðsetning skipanna um klukkan 18:30 í kvöld. Kort/​Loft­mynd­ir-mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka