Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að héraðsdómarinn Sandra Baldvinsdóttir væri ekki vanhæf til þess að dæma í stóra skattsvikamálinu. Verjandi eins sakbornings í málinu fór fram á að dómarinn viki þegar til stóð að hefja aðalmeðferð málsins á þeim forsendum að hún væri vanhæf til þess að fjalla um það.
Verjandinn hélt því fram að dómarinn væri vanhæfur vegna þess að hún hefði heimilað lögreglu að hlusta á síma sakborningsins þegar málið hafi verið í rannsókn. Verjandinn sagði úrskurðinn hafa verið löglausan. Dómari sem hefði heimilað lögreglu að fremja mannréttindabrot gegn umbjóðanda sínum væri vanhæfur til þess að dæma í málinu.
Hérðsdómur bendir á að dómari sé vanhæfur samkvæmt lögum hafi hann gætt réttar sakbornings eða brotaþola í dómsmáli. Heimild dómarans feli hins vegar ekki slíkt í sér. Einnig séu umræddar upptökur ekki á meðal málsgagna. En jafnvel þó svo þýddi það ekki samkvæmt lögum að dómarinn væri vanhæfur til þess að fjalla um málið.