Yfirheyrslum lokið á Hverfisgötu

Lögreglan að störfum á hafnarbakkanum í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Lögreglan að störfum á hafnarbakkanum í Hafnarfirði í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirheyrslum yfir tveimur skipverjum af togaranum Polar Nanoq er lokið, að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns. Hann segir að rannsókninni miði áfram en lögreglan hefur fengið gríðarlegan fjölda ábendinga í tengslum við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Þrír skipverjar af togaranum voru handteknir í gær í tengslum við rannsóknina.

Ekki er hægt að upplýsa um það sem fram hefur komið við yfirheyrslur yfir þremenningunum í nótt en þeir eru grunaðir um að búa yfir vísbendingum um hvarf Birnu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort óskað verði eftir gæsluvarðhaldi yfir þeim en ákveða þarf fyrir hádegi hvort óskað verði eftir gæsluvarðhaldi yfir tveimur þeirra sem voru handteknir eftir hádegi í gær. 

Grímur segir að ofuráhersla sé lögð á að finna Birnu en það hafi ekki tekist enn. Hins vegar séu að koma fram upplýsingabútar sem hjálpa til við leitina. „Ég vonast til þess að þetta leysist á endanum,“ segir Grímur í samtali við mbl.is en hann stýrir leitinni að Birnu og hefur gert frá því leit hófst eftir að hún skilaði sér ekki heim aðfaranótt laugardags. 

Líkt og fram kom á mbl.is fyrr í morgun þá er rannsókn um borð í togaranum lokið en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var þar að störfum í alla nótt. Þar voru einnig teknar skýrslur af vitnum, það er öðrum skipverjum.

Polar Nanoq kom til hafnar seint í gærkvöldi en skipinu var snúið til Íslands að beiðni íslensku lögreglunnar. Tveir skip­verj­ar voru hand­tekn­ir af sér­sveit­ar­mönn­um Rík­is­lög­reglu­stjóra um borð í skip­inu um há­degi í gær, grunaðir um að búa yfir upp­lýs­ing­um um hvarf Birnu. Síðar um dag­inn var sá þriðji hand­tek­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka