Engar upplýsingar hafa komið fram um hvar Birnu getur verið að finna en mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi grunaðir um að eiga aðild að hvarfi hennar hafa ekki verið yfirheyrðir í dag. Þeir eru vistaðir á Litla-Hrauni og stendur ekki til að yfirheyra þá um helgina nema eitthvað gefi tilefni til þess.
Ökumaður hvíta bílsins hefur ekki gefið sig fram en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því að ökumaður hvíta bílsins, sem var ekið vestur Óseyrarbraut í Hafnarfirði laugardaginn 14. janúar klukkan 12:24 hefði samband en hann gæti hugsanlega búið yfir upplýsingum sem kunna að nýtast lögreglu við rannsókn máls Birnu.
Að sögn Gríms er árangurinn af leitinni í dag sá að það er búið að fara yfir ákveðin svæði sem hægt er að leggja til hliðar sem leitarsvæði eftir þessa yfirferð þar sem ekkert hefur fundist sem hægt er að tengja við Birnu.
Stöðugt er unnið í farsímagögnum og segir Grímur þau vera sönnunargögn sem skipta miklu máli í rannsókninni en lögreglan lagði hald á farsíma mannanna tveggja og hefur reynt að tengja þá við farsíma Birnu sem enn er ekki fundinn. Þetta eru lifandi gögn og alltaf eitthvað nýtt sem kemur þar fram en enn er eyða í tímalínunni yfir ferðir tvímenninganna og rauðu Kia-Rio bifreiðarinnar, það er frá kl. 7 til 11:30 er bílnum var ekið frá Hafnarfjarðarhöfn á laugardagsmorgninum. Bíllinn var lengi í burtu, eða í rúmar fjórar klukkustundir, og gæti því hafa farið nokkuð langa leið. Því er leitarsvæðið svo gríðarstórt sem raun ber vitni.
Spurður um sakaferil mannanna tveggja segir Grímur að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi aflað gagna frá starfssystkinum sínum í Grænlandi og Danmörku en hann fari ekki ofan í hvað felst í þeim. Hann segir að ekki sé heldur hægt að upplýsa um hvort niðurstaða sé komin varandi þau lífsýni sem send voru utan til rannsóknar.