Nýjar vísbendingar í hvarfi Birnu Brjánsdóttur hafa orðið til þess að björgunarsveitir verða kallaðar aftur til miðstöðvar til að endurskipuleggja leitina. Þetta staðfesti upplýsingafulltrúi Landsbjargar, Þorsteinn G. Gunnarsson, í samtali við mbl.is.
Frétt mbl.is: Lögregla boðar til blaðamannafundar
„Við erum að kalla hópana inn í bækistöðvarnar í Hafnarfirði og Grindavík og nú er verið að teikna upp ný leitarsvæði,“ segir Þorsteinn.
Hann gat ekki gefið upp að svo stöddu hver vísbendingin hefði verið né hver nýju leitarsvæðin yrðu en það ætti að skýrast á næsta klukkutímanum.
„Lögreglan er að fara yfir málið og það bendir allt til þess að eftir þennan fund verði aðrar áherslur,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að björgunarsveitir séu ekki hættar leit. Út frá þessari nýju vísbendingu verði aftur á móti vegið og metið hvaða mannafla þurfi í þau verkefni sem séu til staðar. „Það skýrist innan skamms tíma hvaða vísbending þetta er.“
Mörg hundruð björgunarsveitarmanna hafa staðið í víðtækri leit á suðvesturhorninu sem hófst um níuleytið í gærmorgun. Leitin í gær skilaði engum vísbendingum og framan af deginum í dag dró lítið til tíðinda.