Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lagt fram fyrirspurn til umhverfis- og skipulagsráðs þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort til séu reglur um notkun sorpkvarna í eldhúsvöskum á heimilum í Reykjavík.
Er tilefni fyrirspurnarinnar að skapa umræðu um hvort samband kunni að vera á milli notkunar sorpkvarna og aukins músa- og rottugangs í borginni. „Haustið og veturinn 2016/2017 er skv. fréttum mikill músa- og rottugangur í borginni sem kemur til vegna veðurfarsins en reikna má með að hakkaðar matarleifar frá heimilum hjálpi stofninum líka,“ segir meðal annars í fyrirspurninni.
„Okkur bara langar að vita hvort það séu til einhverjar reglur um þetta og eins þá um leið að fá umræðu um þetta,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en hann lagði fram bókunina ásamt Hildi Sverrisdóttur.