Ætti að fjalla um markmið og leiðir

Ari Trausti, til vinstri, á Alþingi í kvöld.
Ari Trausti, til vinstri, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Stefnuræða á að fjalla um markmið og leiðir í stað útlistunar á almennum hugtökum eins og stöðugleika, jafnvægi og framsýni. Þetta sagði Ari Trausti Jónsson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í ræðu sinni um stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. 

Ari sagði að þrátt fyrir að í stefnuræðu forsætisráðherra væri bent á innviðauppbyggingu, aukna verðmætasköpun og hagvöxt, svaraði það ekki ákalli tugþúsundanna um betri heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menntakerfi og almannatryggingar. Hann benti á að í ræðu forsætisráðherra væri úthugsuð hagfræði auðhyggjunnar þar sem verndaður væri hagur 10% þjóðarinnar sem eiga 60% eigna, eða þess eina prósents sem tekur við 44% allra fjármagnstekna.

Ari benti á að til væri mikið fjármagn, handan allra hagsveiflna, sem taka má af til samneyslunnar án þess að samfélagið brotni. Staðan í heilbrigðiskerfinu og þolmörk þess ræddi Ari einnig um og sagði raunveruleikann þar vera dökkan.

Hann vísaði til þess að óánægja með nýja ríkisstjórn í skoðanakönnun endurspegli þrotna þolinmæði kjósenda gagnvart tregðu við að lagfæra skemmda innviði. 

Til að ná að efna skilmála Parísarsamkomulagsins eftir 13 ár þarf milljarða, mikla samvinnu og vönduð markmið í öllum geirum umhverfismála. Þetta er „mikilvægasta mál jarðarbúa til langs tíma,“ sagði Ari og benti á að forsætisráðherra hafi ekki rætt um þetta mikilvæga mál. 

Ari gagnrýndi ríkisstjórnina einnig fyrir að sneiða hjá að ræða um stjórnun á fjölgun ferðamanna og sagði að í ferðaþjónustunni ríktu „frumskógarlögmál“. 

Hann benti á að ójöfnuður hafi aukist og velferðin trosnað um of á síðustu þremur til fjórum áratugum. „Samtal okkar hér á þingi mun snúast um átök jafnt sem samvinnu og það á líka við um þjóðfélagið allt,“ sagði Ari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert