„Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn“

Sigmundur Davíð á Alþingi í kvöld.
Sigmundur Davíð á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Að loknum undarlegustu kosningum síðari ára að mati Sigmundar, og eftir að hafa hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherra og umræðu um hana, væri hann engu nær um hvað ríkisstjórnin ætlaði sér.

Þótti Sigmundi merkilegt að hafa heyrt Bjarna Benediktsson forsætisráðherra svara því svo til í fjölmiðlum þegar hann var spurður hvað stæði upp úr hjá nýrri ríkisstjórn, að það væri ríkisfjármálaáætlun. Þótti Sigmundi það undarlegt þar sem fjármálaáætlun sé lögbundin. „Ráðherrann gæti allt eins fylgt því eftir með því að segja; svo verður skipað í nefndir og haldnar eldhúsdagsumræður einhverju síðar,“ sagði Sigmundur.  

„Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn,“ sagði Sigmundur, áður en hann gerði störf ríkisstjórnarinnar í sinni tíð sem forsætisráðherra að umræðuefni. „Þá var strax ráðist í framkvæmdir,“ sagði Sigmundur. Hann hafi aðeins heyrt nýja ríkisstjórn „fara með frasa“ og að fyrsta árið verði notað til að „skoða málin“.

Segir Benedikt „alræmdan plottara“

„En auðvitað ættum við að gleðjast,“ sagði þá Sigmundur og átti þar við að svo virtist sem Björt framtíð og Viðreisn virtust hafa gefið eftir öll sín meginstefnumál í stjórnarsáttmálanum. Þá kallaði Sigmundur Benedikt Jóhannsson, formann Viðreisnar, „alræmdan plottara“.

„Hvað þurfti Sjálfstæðisflokkurinn að efna til að fá Viðreisn til fylgis við sig?“ spurði Sigmundur og sagði forsætisráðherra þurfa að passa sig. „Ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig af því hversu mikið hann hefur aukið útgjöld ríkissjóðs,“ bætti Sigmundur við og velti fyrir sér hvert verði „viðeigandi plott“ í samstarfi stjórnarflokkanna þriggja, ekki síst hvað varðar endurskoðun fjármálakerfisins og Evrópusambandið.

„Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa stefnu, takmarkaða sýn og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd,“ sagði hann undir lok ræðunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert