Alþingi kemur saman til fundar á nýjan leik í dag að loknu jólafríi og hefst þingfundur kl. 13.30. Enn hefur engin niðurstaða eða sátt náðst á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu um hvernig formennsku í átta fastanefndum þingsins verði skipt á milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu.
Stjórnarflokkarnir hafa lýst því sjónarmiði að þeir telji eðlilegt að þeir fái formennsku í sex þingnefndum, Sjálfstæðisflokkur í fimm þingnefndum og Viðreisn í einni og stjórnarandstaðan í tveimur.
Það finnst stjórnarandstöðuflokkunum vera rýrt í roðinu og klént, eins og Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata, orðaði það. Formenn allra þingflokka funduðu um málið í gær, en haft er eftir Birgi Ármannssyni, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag, að engin sátt hafi náðst á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu.